140. löggjafarþing — 81. fundur,  30. mars 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[11:55]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Eitt sem kemur fram í umsögn Daða Más Kristjánssonar snertir það sem hæstv. ráðherra kom inn á, að með mjög hárri gjaldtöku á góðu árunum er lítið svigrúm skilið eftir fyrir fyrirtækin til að lifa af mögru árin. Reyndar er það rétt sem fram kemur hjá ráðherranum að í uppsjávarveiðunum er gert ráð fyrir því að gjaldið hverfi alveg þegar lítið sem ekkert veiðist, en engu að síður lifir fasta gjaldið. Það verður líka að gera ráð fyrir því að inn á milli komi ár þar sem útgerðin er hreinlega rekin með tapi eða neikvæðri framlegð. Hún situr þá alltaf uppi með það. Myndin dregst þá þannig upp að menn eru látnir í friði og sitja sjálfir uppi með vandann þegar illa árar eða framlegðin er neikvæð en um leið og þeir fá einhvern afrakstur af veiðunum er, eins og það blasir við mér í þessu frumvarpi og fyrstu útreikningar sýna, allt of hátt hlutfall af framlegðinni tekið af þeim. Þetta dregur úr öllum hvata til að fjárfesta í greininni.

Ég hygg að við höfum í upphafi þessarar umræðu orðið nokkuð sammála um að það þurfi að fara vandlega yfir tölurnar. Ég trúi því að þegar það verður gert muni koma í ljós að allt of bratt sé farið í gjaldtökuna með þessum hugmyndum. Ég ætla hins vegar ekki að neita því sem hæstv. ráðherra bendir á að ákveðin sanngirnishugsun birtist í því að hafa gjaldið breytilegt eftir árferði. Ekki ber að gera lítið úr því. En gjaldtakan í heildina verður að skoðast með hliðsjón af rekstrarumhverfi útgerðarinnar að öðru leyti. Þannig verður þetta mál ekki slitið frá hinu málinu sem lagt hefur verið fram um stjórn fiskveiða. Ég teldi fara best á því að málin yrðu unnin saman í nefnd.