140. löggjafarþing — 81. fundur,  30. mars 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[11:58]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Við ræðum frumvarp til laga um veiðigjöld og hefur ýmislegt komið fram í umræðunni bæði í dag og í gær um þennan lið málsins. Þetta eru tvö mál en skyld að sjálfsögðu. Þá hafa ýmsir sérfræðingar sem hafa þekkingu á greininni tjáð sig og eru byrjaðir að reikna. Við vitum að úti um allt land sitja núna starfsmenn stórra fyrirtækja og reikna og reikna. Þeir gera það með sínum ráðgjöfum, hverjir sem það eru, endurskoðendum og öðrum. Það eru strax byrjaðar að koma til okkar athugasemdir og þær sem sá er hér stendur hefur fengið eru nokkuð á sömu bókina, þ.e. áhyggjur af áhrifum þessarar miklu gjaldtöku á rekstur fyrirtækjanna, möguleika þeirra til að vaxa o.s.frv.

Einnig hafa komið fram miklar áhyggjur frá sveitarstjórnarmönnum um áhrif á byggðirnar og hvaða áhrif þetta hefur á einstök samfélög. Það verður ekki litið fram hjá því að auðvitað er hætta á því að á þeim stöðum á landinu þar sem eru margar litlar útgerðir og meðalstórar, eða hvernig það er, geti áhrifin orðið, og verða það sjálfsagt, mjög misjöfn eftir svæðum. Í frétt á Ríkisútvarpinu hefur nú þegar verið birt viðtal við sérfræðing í þessum sjávarútvegsmálum, við Háskólann á Akureyri minnir mig, og sá ágæti maður telur að 16 eða 17 af 20 stærstu útgerðunum muni illa þola þessar breytingar. Það sem mér þótti verra sem þingmanni Norðvesturkjördæmis var að sá ágæti maður taldi að áhrifin yrðu mjög mikil á það kjördæmi.

Auðvitað á eftir að fara ofan í þetta mál. Það kunna að eiga eftir að koma upp alls konar myndir eða skýringar. Ég sakna þess að mér finnst eins og enn hafi ekki verið tekin alvörudæmi og (ÁI: Ætlar þú ekki að …?) vil ég nú deila einum áhyggjum. Það var hringt í mig í gær af Snæfellsnesinu, þar er dæmi um meðalstóra fjölskylduútgerð sem mundi greiða, miðað við það sem kemur fram í frumvarpinu, 80–90 kr. í veiðigjald á hvert kíló og yfir 30% af hagnaðinum hefðu farið í veiðigjald. Þessi aðili er ekki með neina fiskvinnslu, landar öllu á markað og verður þá væntanlega að fá gott verð fyrir það sem hann setur á markaðinn.

Þessu tengt er spurningin um það hverjir borga og hverjir ekki. Mér sýnist að þeir sem eru bara í útgerð taki hlutfallslega meira veiðigjald vegna þess að þetta er gert út frá heildinni. Þeir sem eru með veiðar og vinnslu borga vitanlega af því líka en það er ekki eins rekstur á því fyrirtæki og hjá þeim sem eru bara í útgerð. Þeir sem eru bara í fiskvinnslu greiða ekki neitt. Kemur það að sjálfsögðu heim og saman við að þeir eru ekki að veiða auðlindina, þeir kaupa á markaði. Við vitum að aðilar sem eru bara í vinnslu geta haft mikil áhrif á verð á fiskmörkuðum ef þeir kjósa svo.

Ég tek fram að ég þekki engin dæmi um það. Ég er bara að segja að það er hægt að gera það.

Þegar menn fara að ræða um það í nefndinni verður sjálfsagt skilgreint hvað séu eðlileg mörk, hvað umframhagnaður, hvenær hann myndist og hvenær ekki. Ég verð að segja að ég er litlu nær um það hvenær sú staða er uppi að það sé orðinn til einhver verulegur umframhagnaður.

Ég vil líka, frú forseti, koma því á framfæri varðandi skuldsetninguna að langflestir í sjávarútvegi eru skuldsettir vegna kaupa á aflaheimildum eða skipum. Vitanlega eru til dæmi um að fyrirtæki eru skuldsett út af einhverju allt öðru. Það ber að skoða sérstaklega, ekki að taka það inn í umræðuna eins og allir hafi verið að taka peninga út úr greininni í einhverja ævintýramennsku. Það er ekki þannig og það er rangt að halda því fram.

Það er eitt sem ég hef nokkrar áhyggjur af og á eftir að koma upp í umræðunni en ég vil koma strax á framfæri. Að mínu viti voru ekki metin nógu mikið áhrifin á einstakar útgerðir áður en frumvarpið kom fram. Í gær kom fram hver áhrifin yrðu hugsanlega á fjármálastofnanir, banka. Ég sá í fréttum í morgun að þar eru menn áhyggjufullir og ætla að skoða málið en taka fram að þetta muni ekki ríða bönkunum að fullu. Þeir hafa samt áhyggjur. Síðan er annað sem ég hef ekki enn séð í fjölmiðlum en hef töluverðar áhyggjur af, áhrifin á sjávarklasann. 25–30 þús. manns tengjast sjávarútveginum með beinum og óbeinum hætti, í veiðum, vinnslu, nýsköpun og öllu því sem þar tengist. Þegar minni fjármunir eru í fyrirtækjunum til að setja í slíka þætti hefur það áhrif þannig að áhrifin geta verið mikil.

Ég er heldur ekki sannfærður, frú forseti, um að það sé betra að fara þessa leið en að nota skattkerfið eða til dæmis skattþrep. Þótt ég sé ekki sérfræðingur í skattamálum finnst mér einhvern veginn liggja í augum uppi að þegar illa gengur borga menn minni skatt en þegar vel gengur borga menn meiri skatt, en þá miðað við þetta þrep.

Hér er verið að leggja auknar álögur á útgerðir, litlar og stórar, til viðbótar við skerðingar sem hafa verið á aflaheimildum undanfarin ár þar sem þessi fyrirtæki hafa ekki fengið til baka þegar maður sér að vel getur gengið. Ég hefði haldið að það þyrfti að mæta því með einhverjum hætti. Ég tel líka að það þurfi að endurskoða hversu hratt þessi flokkur 2 stækkar og stærð hans í heild. Ég held að þurfi að endurskoða það. Ég ætla ekki að slá neitt út af borðinu með þennan pott. Mér finnst þó við fyrstu sýn að það sé of mikið að fara í hann. Þetta þarf allt að skoða.

Mér finnst of lítið gert með það að verið er að auka skattheimtu meira á landsbyggðina með þessu en þéttbýlið, á höfuðborgarsvæðið. Þetta er fyrst og fremst landsbyggðargjald. Landsbyggðin mun borga þetta gjald. Við sem búum og þekkjum til í sjávarþorpunum og bæjunum vitum alveg að þar er jafnvel bara eitt stórt fyrirtæki sem leggur mikið til samfélagsins. Ég ætla að leyfa mér að taka dæmi úr mínum heimabæ af Fiskiðjunni Skagfirðingi sem er stórt og mikið fyrirtæki, vel rekið og getur örugglega lifað þetta af, þannig að það sé sagt, vegna þess hversu vel það er rekið. Það fyrirtæki er eign samvinnufélags sem í eru um 1.700 manns sem eiga það þar af leiðandi. Þetta félag tók fyrir skömmu í notkun hús sem það byggði upp á 200–300 millj. kr. sem það lánar endurgjaldslaust að stórum hluta til háskólastarfsemi, svo dæmi sé tekið, til rannsókna og nýsköpunar. Það er óvíst að svona hús hefði verið byggt eða verði byggt þegar fjármunir fara annað, fara út úr samfélaginu. Þetta vil ég að komi hér á blað. Svona er þetta mjög víða úti um land, þetta eru fyrirtækin sem halda uppi samfélagslegum verkefnum. Ég hef áhyggjur af þessu.

Þessi fyrirtæki, mörg hver, svo því sé haldið til haga, eru fyrirmyndarfyrirtæki. Ég vil taka það líka fram að mér finnst hafa skort allt þetta kjörtímabil á að ráðamenn þjóðarinnar tali þessa atvinnugrein upp. Sjávarútvegurinn er flott atvinnugrein. Í henni er dugmikið fólk á öllum sviðum og hann á ekkert annað skilið en að það sé talað vel um þessa grein.

Að endingu vil ég segja að ég hef miklar efasemdir um þá aðferðafræði sem hér er sett upp. Ég hef efasemdir um ýmislegt í hinu frumvarpinu líka, svo sem þetta heimfall sem kallað er, stækkun pottanna og það sem gerist eftir 20 ár varðandi mögulegt framsal. Upphæðirnar í veiðigjald eru að mínu viti allt of háar og munu reynast mörgum útgerðum og byggðarlögum mjög erfiðar.