140. löggjafarþing — 81. fundur,  30. mars 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[12:08]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Við þessa umræðu erum við að hlusta á talsmenn flokkanna ræða veiðigjaldafrumvarpið. Eins og ég sagði áðan í andsvari hlustaði ég á formann Framsóknarflokksins tala um þetta í gær og átti andsvar við hann um stefnu Framsóknarflokksins og það sem kemur fram í þessum frumvörpum sem er ótrúlega líkt.

Þess vegna spyr ég hv. þingmann sem hér var að ljúka ræðu, talsmann Framsóknarflokksins í þessari umræðu, hv. þm. Gunnar Braga Sveinsson, sem ég óttast að heyri ekki spurningu mína núna en engu að síður verð ég að setja hana fram, kannski setja hana bara fram sem ekki-andsvar, en vitna til þess aftur að í ályktun á 31. flokksþingi framsóknarmanna um sjávarútvegsmál er alveg ótrúlega margt líkt með stefnu Framsóknarflokksins í sjávarútvegsmálum og því sem kemur fram í þessu frumvarpi. Leyfum okkur aðeins að fara fram hjá forsendunum og hugmynd um hvert veiðigjaldið á að vera. Við eigum eftir að ræða það en hér er sagt að það séu 23 milljarðar brúttó og frá því á eftir að dragast heilmikið. Spurning mín í fyrra andsvari til hv. þingmanns, talsmanns Framsóknarflokksins í þessari umræðu hér, er hvort það sem hér er boðað með ákveðnum fyrirvara um upphæðir sé ekki nákvæmlega í takt við ályktanir 31. flokksþings Framsóknarflokksins.