140. löggjafarþing — 81. fundur,  30. mars 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[12:15]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er rétt hjá hv. þingmanni að það er mjög mikilvægt að leiða í sátt þær umræður sem hafa orðið hér. Ég vil fyrst segja að þegar rætt er um „hóflegt“ þarf að sjálfsögðu að útskýra hvað hóflegt veiðigjald er. Mér sýnist í þessum frumvörpum ekki verið að tala um hóflegt veiðigjald.

Það er líka annað sem mikilvægt er að koma á framfæri þegar verið er að tala um nýtingarsamninga og nýtingarleyfi, að í flokksþingssamþykkt Framsóknarflokksins er talað um nýtingarsamninga. Nýtingarleyfi byggist þá á nýtingarsamningi. Í þessu frumvarpi er hvergi talað um samninga. Það er ekki talað um hvernig menn eiga að fá þessi leyfi til að veiða. Það þarf að útskýra mjög nákvæmlega, finnst mér, vegna þess að minn skilningur á því þegar gera átti nýtingarsamning eins og við ræddum í sáttanefndinni svokölluðu stóru, sem leyfin svo tengjast og byggja á, var sá að með því reyndu menn að koma í veg fyrir — það var mín skoðun, svo ég taki það fram, ég er ekki að boða hér skoðun allrar nefndarinnar — að með því gætu menn komið í veg fyrir möguleg málaferli út af sjónarmiðum sem eru víða um eignarrétt. Ég er ekkert endilega sammála því og á eftir að gera það upp við mig persónulega hvenær eignarréttur getur orðið til í þessu, en það eru sjálfsagt til einhver dómafordæmi í því öllu saman. Kosturinn við að gera slíka samninga var að það hefði verið mögulegt að koma í veg fyrir eitthvað þess háttar ef sú áhætta er til staðar.

Annað er að í samningum, og það er svo sem hægt að skilyrða það líka inn í leyfi, það er ekki það, er hægt að kveða á um ákveðna hluti sem menn þurfa að uppfylla og standa skil á. Hugmyndin hjá okkur var alltaf sú að það yrðu gerðir einhvers konar samningar sem þessi leyfi byggðu svo á.

Það er rétt hjá hv. þingmanni að þessi stóra mynd sem við ræðum hér, sem er umgjörðin, er mjög lík.