140. löggjafarþing — 81. fundur,  30. mars 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[12:34]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Í 28 ár, frá árinu 1984, hefur verið óeining um kvótakerfið. Þegar maður greinir þá óeiningu, sem felst í mörgu, er hún ekki um aflamark eða sóknarmark, ekki um þetta eða hitt, heldur finnst mér hún aðallega snúast um óánægju með eignarhaldið og framsalið — vegna þess að eignarhaldið er óklárt vilja menn takmarka framsalið.

Það frumvarp sem við ræðum hér er mjög athyglisvert en tengist frumvarpi sem við ræddum á miðvikudaginn. Mér finnst mjög miður, frú forseti, að við getum ekki rætt það líka vegna þess að nú er hæstv. ráðherra kominn hingað í þingsal og gæti svarað spurningum mínum. Ég spurði nokkurra spurninga þá og fékk ekki svar. Það er því spurning hvort ég megi, með leyfi forseta, spyrja þeirra spurninga núna þó að málið sé ekki lengur á dagskrá.

(Forseti (ÁI): Það er rétt sem hv. þingmaður segir, málið er ekki á dagskrá. Því hefur þegar verið vísað til hv. atvinnuveganefndar en forseti mun ekki gera athugasemdir við það þótt þingmaður spyrji.)

Þetta eru tiltölulega einfaldar spurningar. Ég spyr í fyrsta lagi hvernig ráðherra hafi hugsað sér hlutina með nýja stofna sem kannski finnast, sem tengjast 9. gr., það er alveg opið hvernig það eigi að vera, hvernig menn ætla að leysa það vandamál.

Síðan er spurning um 13. gr.: Á hvaða verði ætlar ráðherra að kaupa kvóta sem er fluttur úr byggðarlagi eða sveitarfélagi og er umfram 20% af veiðiheimildum? Þá er skilyrði um að það sé heimilt að ríkissjóður kaupi það og selji aftur innan svæðisins og þá er spurningin á hvaða verði það verður selt. Getur verið að hann sé að niðurgreiða það?

Síðasta spurningin varðar sveitarfélögin í 19. gr., af tekjum frá kvótaþingi á að setja 40% til sveitarfélaga. Verður þetta eins og þegar Egill gusaði silfrinu á þingi, eða hvað gerist? Eiga þau að bítast um þetta? Hvernig reglur á að hafa um dreifinguna til sveitarfélaga? Fær Skaftárhreppur eitthvað af þessu eða hvernig er það?

Þá ætla ég að snúa mér að því frumvarpi sem við ræðum hér og þakka frú forseta fyrir að gera ekki athugasemd við frumhlaup mitt. Við ræðum um veiðigjald og ekki er hægt að ræða um það án þess að átta sig á því hvernig það varð til. Veiðigjaldið varð til á sínum tíma út úr tvíhöfðanefndinni ef ég man rétt, þetta er nú dálítið eftir minni. Síðan var sett á laggirnar sáttanefnd sem ræddi um greiðslur fyrir afnot af auðlindinni, sem veiðigjaldið að sjálfsögðu er. Þar var farið að ræða um potta og alls konar slíka hluti. Þetta eru allt saman leiðir til að reyna að finna út úr því hvernig við komum þjóðinni að þessari auðlind sinni, hvernig hún getur eignast þessa auðlind sína. Þá líta menn alltaf, blindum augum vil ég segja, þannig á að ríkið sé sama og þjóð, að meira að segja sjávarútvegsráðherra sé sama og þjóð. Einu sinni var maður sem sagði: Ég er ríkið. En það er langt síðan. Nú telja menn að þjóðin eigi að eiga auðlindina og það er langur vegur frá hæstv. sjávarútvegsráðherra til þjóðarinnar þó að hann sé þannig séð 1/300.000 þjóðarinnar.

Talað er um leyfi í staðinn fyrir samninga. Það er svona meira til að undirstrika hvar valdið liggur. Sá sem veitir leyfi er ekki á sama plani og sá sem gerir samning. Þegar gerðir eru samningar eru það yfirleitt tveir aðilar sem eru jafnréttháir, alla vega er ímyndin sú, en þegar menn veita leyfi er annar af gustuk sinni að veita hinum leyfi. Það er dálítill munur á þessu og þetta er til að undirstrika að við stefnum í ríkisútgerð eins og ég kem nánar inn á.

Það er áhætta í öllum rekstri eins og kunnugt er, ég ætla að vona að flestir viti það. Mannahald, bilanir, verð á aðföngum, markaðsverð, fjármögnun, mismunandi ávöxtunarkrafa, mismunandi aðgengi að fé — þetta er venjuleg áhætta í öllum rekstri. Í sjávarútvegi kemur viðbótaráhætta til sögunnar sem er áhætta vegna gæfta, veðurfars, skipstapa, fiskgengdar, strauma, hlýnunar jarðar o.s.frv. Sandsílið er horfið og lundinn. Lífkeðjan virðist vera að fara norður og í því felst áhætta til langs tíma fyrir útgerðarfélög. Loðnan er mjög áhættusöm. Hún getur legið niðri í mörg ár en svo kemur hún allt í einu, eins og núna, og blómstrar. Það er mikil áhætta í útgerð.

Áhættan endurspeglast í ávöxtunarkröfunni eða arðseminni, sem hér er sett á 8%. Ég reyndi að finna út úr því hvort um væri að ræða raunávöxtun eða nafnávöxtun og komst að því í skýringum að þetta er raunávöxtun. Ég legg til að nefndin setji það inn í frumvarpið að verið sé að tala um 8% raunávöxtun. Það skiptir verulegu máli þegar verðbólga er 6% eins og nú er og stefnir hærra. Þá getur 8% nafnávöxtun nánast orðið 0% raunávöxtun.

Ávöxtunarkrafan á að endurspegla áhættuna og í sjávarútvegi þarf ávöxtunarkrafan að vera töluvert hærri en í venjulegum rekstri, hvað þá í ríkisrekstri eins og hjá Landsvirkjun. Landsvirkjun malar þetta bara, allir dagar eru venjulegir, peningar koma inn og orka fer út, litlar sveiflur eru í afkomunni og lítil sveifla í áhættunni þannig að það er mjög rangt að bera saman útgerð og raforkuframleiðslu.

Hér er ýmislegt fleira sem menn horfa til. Menn setja á fast veiðigjald og það er eins og gamla aðstöðugjaldið, 1% gjald á fyrirtæki sem var óháð rekstri. Það fór mjög illa með fyrirtæki þegar illa gekk. Þetta mun fara mjög illa með fyrirtækin þegar illa gengur. Ef við lítum á afkomu fyrirtækjanna sem sveiflur eða öldur upp og niður þá er þessi krafa alltaf hin sama. Þegar tap er mun fjöldi fyrirtækja fara á hausinn þannig að þetta gjald er mjög varasamt. Og prósentan, sem hefur farið upp í 70%, skefur ofan af hagnaðartoppunum. Þegar fyrirtækin eiga að safna til mögru áranna er ekkert til að safna. Þá bara eiga þau ekki upp í öldudalinn sem kemur á milli.

Þetta er allt mjög hættulegt og sýnir að við erum komin út í ríkisrekstur, sovétrekstur, á útgerð, þar sem einhverjir menn teikna upp á grænu skrifborðunum sínum eitthvert atvinnulíf og hafa jafnvel ekki hundsvit á því, ég held að 8% ávöxtunarkrafa sé alveg út í hött. Ég nefndi alla þessa áhættuþætti, fiskgengd og annað slíkt — það er kannski ekki í botnfisktegundum en í hinum tegundunum, loðnu, síld, makríl og slíku, er áhættan miklu meiri og ávöxtunarkrafan þyrfti að vera hærri. Ég vil ekki nefna tölur — ég er nú reyndar kominn út í rekstur þessara fyrirtækja verandi á Alþingi og farinn að ákveða þetta sovéskt, það er kannski rétt að ég nefni tölu. Ég ætla að nefna 11% fyrir uppsjávarfiska, bara svona af því ég er nú að stýra þessum atvinnurekstri.

Hér er líka eitthvað gert fyrir smælingjana, fyrir viss atkvæði. Þá segja menn að af fyrstu 30 tonnunum greiðist ekkert gjald. Það eru svona pínulitlar atkvæðaveiðar inni í þessu og þær munu halda áfram í gegnum tíðina. Þegar menn eru komnir yfir 100 tonn greiðist fullt gjald. Þetta ber allt saman sterkan keim af því að menn eru að stýra sjávarútveginum frá skrifborðum í Reykjavík og ætla að skammta honum þessa ávöxtunarkröfuna og hina. Það var reynt í Sovét, eins og ég nefndi, og tókst hörmulega. Ég held að það nákvæmlega sama gerist hér, þetta mun takast illa.

Við þurfum að hugsa út fyrir boxið. Ég hef lagt fram frumvarp sem byggist algerlega á markaðsvæðingu, þar sem íbúarnir fá kvótann og munu reyna að selja hann. Sá sem getur veitt ódýrast og selt dýrast getur boðið mest. Þar sem framsalið er algjörlega frjálst verður arðsemi greinarinnar eins mikil og unnt er, miðað við þá áhættu sem er í greininni, til hagsbóta fyrir þjóðarbúið.

Færa má rök fyrir því, sem ég geri í frumvarpinu, að útgerðarfyrirtæki hafi í 28 ár búið við gífurlega áhættu — það er alltaf verið að tala um að taka kvótann af þeim, það er talað illa um þetta fólk, kvótagreifar o.s.frv., þetta er orðið ljótt fólk sem stendur í þessum rekstri. Þannig tala mjög margir, því miður. Það geri ég ekki, ég ber virðingu fyrir þessu fólki.

Hér kemur fram frumvarp um að taka svo og svo mikið af þessum fyrirtækjum eins og alla tíð hefur verið gert. Smábátarnir uxu upp í 70 þús. tonn á tímabili, það er tekið af þeim sem fengu kvótann upphaflega. Allir pottarnir fyrir sveitarfélögin, allt tekið af þeim sem áttu kvótann upphaflega eða höfðu keypt hann dýrum dómi. Áhættan í rekstrinum hingað til endurspeglast í mjög hárri ávöxtunarkröfu því að menn eru hættir að fjárfesta þó að hægt sé að fá peninga alls staðar á lágum vöxtum. Áhættan er orðin svo mikil að menn standa ekki í þessu.

Hugmynd mín um að framsalið sé algerlega frjálst — aflahlutdeildin skilgreind sem pikkföst eign, reyndar afskrifuð á 40 árum — er að mínu mati meira virði fyrir útgerðina en núverandi staða, útgerðin mundi græða á því. Ég held að menn ættu að skoða markaðstengdar lausnir af því við trúum, alla vega sum okkar, á markaðskerfi og samkeppni.