140. löggjafarþing — 81. fundur,  30. mars 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[12:49]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Varðandi sáttina tel ég mjög nauðsynlegt að finna hana, en að sáttin felist í að miðstýra öllum sjávarútvegi held ég að hafi þvílík áhrif til hins verra á afkomu og arðsemi greinarinnar að þjóðin muni skaðast mjög mikið á því. Ég skora á menn að skoða aðrar leiðir, t.d. þá leið sem ég bendi á eða einhverja aðra ef þeir finna betri sem byggir á markaðskerfi, arðsemi og frjálsu framsali. Það er mjög mikilvægt.

Þetta var gert í tíð Sjálfstæðisflokksins. Ég var aldrei hrifinn af þessu kerfi. Ég vissi að ef maður rétti litla putta yrði öll höndin tekin. Það er einmitt það sem er að gerast. Þegar kemur toppur í loðnunni og útgerðin þyrfti að safna fitu fyrir mögru árin gerist það ekki því að fitan er skorin af. Næst þegar koma mögur ár leggst öll fjárfestingin af. Það er það sem er svo hættulegt. Ef menn geta sjálfir ákveðið hvað þeir borga með því að bjóða í kvóta frá íbúum landsins ákveða þeir sjálfir hvað þeir borga mikið. Það erum ekki við hv. þingmaður sem ákveðum frá skrifborðum eða í ræðustól Alþingis hvað er gott fyrir útgerðina og hvað slæmt.