140. löggjafarþing — 81. fundur,  30. mars 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[13:45]
Horfa

Tryggvi Þór Herbertsson (S):

Virðulegi forseti. Við ræðum frumvarp til laga um veiðigjöld. Þetta er annað af tveimur stórum frumvörpum sem lögð eru hér fram sem annars vegar hafa það að markmiði að gera breytingar á lögum um stjórn fiskveiða og hins vegar málið sem er til umræðu í dag sem snýst um hvernig innheimta á auðlindarentu í sjávarútvegi eða af veiðum.

Í ræðu minni sem ég hélt um frumvarp til laga um stjórn fiskveiða rakti ég hvernig auðlindarentan verður til í fiskveiðum við Ísland, hvernig sett er á kerfi þar sem einkaleyfum er úthlutað til útgerða og hvernig einkaleyfin leiða til þess að samþjöppun verður í greininni þannig að þeir sem vilja annaðhvort hverfa úr greininni eða reka fyrirtæki sín á lakari hátt en aðrir sjá sér hag í að framselja kvóta í fiskveiðum til þeirra sem vilja stunda fiskveiðar áfram og smám saman minnkar það fjármagn sem er í greininni og sjómönnum fækkar og þá myndast það sem er kallað auðlindaarður. Ég rakti þetta nokkuð nákvæmlega.

Ég rakti jafnframt að í þessu frumvarpi um stjórn fiskveiða, þessu nýja frumvarpi, er að nokkru leyti horfið til baka. Kynntar eru til sögunnar leiðir til að fjölga aftur sjómönnum til að auka við það fjármagn sem er í greininni sem leiðir til þess að hluti auðlindaarðsins hverfur aftur í óhagkvæma nýtingu. Meginniðurstaða mín í umfjöllun um þetta frumvarp var sú að þetta væri varhugaverð ráðstöfun vegna þess að stofnar sem gætu myndað skattstofna eða stofna um veiðigjald mundu minnka við þetta, þ.e. framlegð í veiðum mundi minnka með tímanum.

Ég benti á að hefta á framsal samkvæmt frumvarpinu. Til að byrja með verður það heft um 3% af öllum tilflutningi á milli óskyldra aðila. Þessi 3% fara í leigupott sem ríkið mun sjá um. Þegar líður að því 20 ára marki, getum við sagt, sem lagt er upp með mun á endanum eingöngu vera svokölluð hrein nýtingarleyfi, þá verður framsal með öllu bannað. Þetta leiðir í sjálfu sér til þess að sá mekanismi sem ég lýsti vel í ræðu minni og fór aðeins yfir hér að framan, þar sem óhagkvæmar útgerðir eru keyptar út af hagkvæmari útgerðum, hverfur úr greininni og sú hagkvæmni. Eftir að nýtingarleyfin eru orðin hrein er óhætt að segja að við stöndum eftir með sjávarútveg sem tekinn er af skyndimynd á því ári, 20. árinu. Þannig mun það verða um alla framtíð ef þetta frumvarp verður samþykkt. Þeir sem þekkja til fyrirtækjareksturs vita að fyrirtæki eiga sinn líftíma, þau rísa, þau hníga og þau staðna, sem leiðir þá til þess að með tímanum staðna fyrirtæki í sjávarútvegi og auðlindarentan hverfur. Nóg um það.

Í dag ætlum við að ræða frumvarp til laga um veiðigjöld og hvernig á að innheimta auðlindarentuna sem verður til af því fiskveiðistjórnarkerfi sem við höfum hérna. Eins ætla ég að ítreka að sú auðlindarenta mun minnka með tímanum, hún mun ekki hverfa en mun minnka.

Leiðin sem notuð er er að reikna afgjald af fjármagninu sem notað er í fiskveiðum og vinnslu, sem er 8% í veiðunum og 10% í vinnslunni, þannig að framlegðin sem þessi starfsemi skilur eftir — frá þeim stofni er dreginn fjármagnskostnaður sem er 8–10% eins og ég nefndi hérna áðan, þegar það hefur verið gert stendur eftir einhvers konar stofn þar sem ríkið mun með tímanum innheimta 70% af umframframleiðni og útgerðin fær 30%, síðan eru þessi 30% skattlögð með hefðbundinni tekjuskattsprósentu, 20%, það er að segja ef fyrirtækin sýna hagnað.

Það fyrsta sem ég rek augun í er aðferðafræðilegt. Ég skil ekki út af hverju er verið að nota fiskvinnsluna þarna vegna þess að það verður enginn auðlindaarður til í vinnslunni sjálfri, hann verður allur til í veiðunum, þar af leiðandi finnst mér hugtökin vera svolítið ruglingsleg. Eflaust er þetta til að geta stækkað frádráttarliðina hjá fyrirtækjum sem eru lóðrétt, þ.e. með veiðar og vinnslu, vegna þess að verið sé að leiðrétta það einhvern veginn. Ég hefði haldið að það væri einfaldara að hækka prósentuna sem er notuð í arðgreiðsluaðferðinni, svokallaða WACC-prósentu, úr 8% og vera með hana hærri.

Er það raunveruleg auðlindarenta sem er verið að ná þarna utan um? Ég held því fram að svo sé ekki. Auðlindarenta er raunverulega sá umframhagnaður sem myndast við það að fara úr ólympískum veiðum þar sem auðlindarentuhagnaðurinn er núll yfir í að hann myndist. Það er flókið og erfitt að meta það, en það er ekki beint samband á milli framlegðar og auðlindarentu eins og gefið er í skyn í frumvarpinu. Þetta er ónákvæm aðferð og án þess að geta sagt nákvæmlega til um hversu miklu munar gæti verið að það munaði jafnvel tugum milljarða á stofninum.

Það fyrsta sem ég geri athugasemd við beint í sambandi við þessi veiðigjöld er að aðferðafræðin sem er notuð stemmir ekki við auðlindahagfræði, þar af leiðandi er full ástæða til að skoða hana.

Það eru að vísu kostir við aðferðina því að hún fylgir árferði í sjávarútvegi. Þegar vel gengur hjá fyrirtækjunum borga þau háa skatta, þegar illa gengur getur sérstaka veiðigjaldið jafnvel orðið núll, þ.e. að ekkert verði innheimt. Að því leytinu er aðferðin ágæt beint fyrir efnahagsreikning fyrirtækjanna en hún skapar aftur á móti vandamál fyrir ríkisfjármálin vegna þess að það gerir hluta ríkisteknanna sveiflukenndan, samanber ef eitt árið eru tekjur af sérstöku veiðigjaldi engar en næsta ár gætu þær kannski verið segjum 30 milljarðar. Þeir sem hafa haldið utan um ríkisfjármál, eins og hæstv. sjávarútvegsráðherra, vita að það er mjög erfitt þegar svo stórir póstar detta allt í einu út úr tekjum ríkisins. Það skapar vandamál í sjálfu sér. Auðvitað væri hægt að koma með einhverjar aðferðir sem mundu leysa það sem ég ætla svo sem ekkert að gera að neinu sérstöku umtalsefni hérna.

Annað er að taka 70% af þessari umframframlegð, ég vil ekki tala um auðlindarentu heldur umframframlegð, þá er ansi vel höggvið í. Ef við tökum til dæmis klassískt fyrirtæki með 30% eiginfjárhlutfall og 5% fjármagnskostnað að raunvirði, sem er náttúrlega mjög ríflegt, sjáum við það á einfaldan hátt að með því að hafa þessa prósentu 8% gerir það ráð fyrir 10% ávöxtun á eigið fé. 10% ávöxtun á eigið fé er ekki mikið í einkarekstri þar sem krafan gæti verið á milli 15 og 20%. Til þess að fara upp í 15–20% miðað við eigiðfjárhlutfall upp á 30% mundi þessi árgreiðsluaðferðarprósenta hækka upp í um það bil 10%.

Það sem ég geri líka alvarlegar athugasemdir við er að þessi prósenta, þessi 8%, gerir annars vegar ráð fyrir ávöxtunarkröfu á eigið fé og hins vegar ávöxtunarkröfu á það fjármagn sem er bundið í greininni. Stofninn sem þar er notaður og er tilgreindur í frumvarpinu eru vélar og tæki sem notuð eru og veiðarfæri og annað slíkt sem eru notuð í fiskveiðum. Ekki er gert ráð fyrir endurfjárfestingu. Til þess að endurfjárfesta þarf allur arðurinn af eigin fé að fara í endurfjárfestingu, þ.e. það er ekki á neinn hátt gert ráð fyrir afskriftum fjármuna, þannig að til þess að halda fyrirtækinu við og fjárfesta og annað slíkt þarf allur arður af eigin fé að fara í fjárfestingar. Það verður því aldrei tekið neitt út úr fyrirtækinu.

Eins og staðan er núna í útgerð er fiskiskipaflotinn orðinn gríðarlega gamall. Við erum að notast við skip sem eru upp undir 60 ára gömul sem er náttúrlega ekki nein hemja. Nýjasta skipið í flotanum var keypt núna á vormánuðum á Norðfirði þar sem Síldarvinnslan í Neskaupstað keypti 12 ára gamalt uppsjávarskip. Það er nýjasta skipið í flotanum. Í einhvers konar samkeppni um aflaverðmæti, meðferð afla, aðbúnað sjómanna og annað slíkt erum við langt á eftir nágrannaþjóðum eins og Færeyingum og Norðmönnum.

Af því tími minn er að verða búinn vil ég súmmera þetta upp með því að segja að sú prósenta sem er tekin af umframframleiðni er allt of há. Hún mun leiða til þess að fyrirtækin geta ekki fjárfest og borgað af skuldum sínum. Þau fyrirtæki sem eru mjög skuldug, sem eru nálægt því að hafa ekkert eigið fé, munu fara á höfuðið mjög fljótlega en hin sem standa þó betur munu staðna mjög vegna þess að þetta heftir fjárfestingu á vélum og tækjum, fiskiskipum, veiðarfærum og öðru slíku sem mun leiða til þess að íslenskur sjávarútvegur, sem er í algjörum fararbroddi í dag, mun smám saman dragast aftur úr því sem við sjáum í nágrannalöndunum og sjávarútvegur mun ekki verða sá grundvallaratvinnuvegur sem við höfum haft. Hann mun áfram verða grundvallaratvinnuvegur en ekki sá arðsami grundvallaratvinnuvegur sem við höfum haft hér undanfarin 20 ár.

Það er ekki ólíklegt ef allt gengur fram sem er í þessum tveimur frumvörpum að við munum aftur fara að heyra að sjávarútvegurinn sé allur á hausnum og með gjaldeyrishöftum gætum við jafnvel farið að stilla gengið aftur, tekið upp bátagjaldeyri og annað slíkt.