140. löggjafarþing — 81. fundur,  30. mars 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[14:11]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður ræddi frumvarpið og kom svo sem inn á ýmislegt annað því tengt í leiðinni. Mig langar að spyrja hvort skilja megi þingmanninn þannig að svo hátt veiðigjald sem hér um ræðir sé í raun extra mikill skattur eða hvort líta megi á hann einhvers konar landsbyggðarskatt sem draga muni úr tækifærum þeirra félaga, lítilla og stórra, sem í hlut eiga, til að nýta þessa fjármuni heima fyrir í einhver verkefni eða í fjárfestingu og eitthvað slíkt. Það fyrsta sem mig langar að nefna er varðandi þennan landsbyggðarskatt sem ég kalla svo, þ.e. mér finnst þetta of hátt gjald en auðvitað á eftir að endurskoða það allt saman.

Annað sem ég velti fyrir mér er að aflaheimildir hafa verið skertar verulega um langan tíma, mest var skerðingin 2007 nú síðustu ár. Ég velti fyrir mér í því sambandi hvort þingmaðurinn sé mér sammála eða ósammála um að eðlilegt sé að þeir sem eiga aflaheimildirnar fái þessar skerðingar bættar með einhverjum hætti, ekki síst vegna þess að margir þeirra eru nýliðar í greininni. Þeir keyptu sig inn í greinina á árunum 2004, 2005 og 2006, lentu svo í skerðingum strax 2007, og sitja nú uppi með miklar skuldir. Þetta eru nýliðar sem keyptu margir hverjir aflaheimildir á markaði, alls ekki allir þó.

Talað er um nýliðun í sjávarútvegi, þ.e. að auka nýliðun, en nýliðun hefur verið aukin þótt mönnum finnist aukningin kannski ekki nógu hröð, ég veit það ekki. En þessir menn sitja uppi með skuldir, skerðingar á tekjumöguleikum. Er ekki eðlilegt að bæta þeim upp með einhverjum hætti áður en farið er að skerða heimildirnar aftur eða annað eins og samkvæmt þessu nýja frumvarpi?