140. löggjafarþing — 81. fundur,  30. mars 2012.

fjölmiðlar.

599. mál
[15:02]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir framsögu og yfirferð yfir málið. Það sem ég mundi kannski vilja koma fyrst að hér í andsvarinu mínu — já, andsvar, þetta er andsvar, virðulegi forseti, ég óskaði eftir því að koma í andsvar …

(Forseti (RR): Var það andsvar? Forseti taldi að hv. þingmaður hefði óskað eftir ræðutíma.)

Nei.

(Forseti (RR): Þá bara hefjum við þann tíma, tvær mínútur.)

Ég hefði svo sem gjarnan viljað koma í ræðu, en ég óska eftir því að við séum svolítið skýr í umræðunni. Ég mundi í fyrsta lagi vilja fá að spyrja ráðherrann hvort hann telji rétt að vera með lengra tímabil en lagt er til í 8. gr. varðandi bann við birtingu skoðanakannana. Ég vil nefna það sérstaklega varðandi þetta ákvæði í 8. gr. að ég vil nálgast það með jákvæðu hugarfari.

Ég verð hins vegar að segja að ég hef miklar efasemdir varðandi aðrar breytingar sem hæstv. ráðherra boðar í frumvarpinu. Í fyrsta lagi er verið að leggja til breytingar á 6., 7. og 10. gr., en mikil umræða fór fram um þau ákvæði í nefndinni og var það meðal annars ein af forsendum þess að ég treysti mér til að styðja frumvarpið á sínum tíma. Mér finnst það mjög einkennilegt að hæstv. ráðherra komi með þessar breytingar inn í þingið svona stuttu eftir að lögin eru samþykkt. Það má eiginlega segja að með því sé hæstv. ráðherra að segja að hún sé ósammála þeirri miklu vinnu sem þingið fór í og ætli sér einhvern veginn að troða þessu niður kokið á okkur. Það finnst mér mjög einkennilegt og það er ekki í samræmi við þau vinnubrögð sem ráðherra hefur verið þekktur fyrir.

Ég velti líka upp þeirri spurningu varðandi 11. gr. hvort núverandi samkeppnislög dugi ekki til að tryggja það sem ætlunin er að tryggja með þessu ákvæði, þ.e. að samkeppni sé á fjölmiðlamarkaði.