140. löggjafarþing — 81. fundur,  30. mars 2012.

fjölmiðlar.

599. mál
[15:06]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hvað varðar 6. og 7. gr. get ég svo sem tekið undir það að í skýringum með frumvarpinu kemur fram að ætlunin sé að skýra betur þann texta sem Alþingi samþykkti. Hvað varðar 10. gr. er hins vegar algjörlega verið að fara gegn því sem samkomulag var um í menntamálanefnd á sínum tíma, það er eitthvað sem ég hef verulegar áhyggjur af.

Ég lagði mjög mikla áherslu á það í vinnu við frumvarpið að við yrðum að gæta mjög vel að tjáningarfrelsinu, að það væri með mikilvægustu réttindum sem við hefðum sem manneskjur og því væri brýnt að setja það í forgang, virða það og gæta að því. Ég hef því töluverðar áhyggjur af því í þessari upptalningu hér — ég nefndi sem dæmi að mér fyndist það hluti af tjáningarfrelsi að stuðningsmenn Vinstri grænna fengju að segja að þeir þyldu ekki framsóknarmenn, það væri réttur þeirra, en ég hefði þá líka rétt á að hafa skoðanir á þeim. Ég ítreka að ég set mikinn fyrirvara við þetta og er mjög ósátt við þær breytingartillögur sem koma frá hæstv. ráðherra.

Ég sakna þess líka að það skuli ekki koma fram hér einhverjar tillögur til að styðja við fjölmiðla. Staðan á fjölmiðlamarkaði er þannig að það er ekki bara samþjöppun sem við þurfum að hafa áhyggjur af. Við þurfum að hafa áhyggjur af fjárhagslegri stöðu fjölmiðla almennt, meira að segja stóru fjölmiðlanna. Samdrátturinn í efnahagslífinu hefur svo sannarlega haft áhrif á þá og gert það að verkum að þeir litlu fjölmiðlar sem eru þó að reyna að reka sig eiga í miklum erfiðleikum. Þetta hefur bitnað mjög harkalega á starfsmönnum fjölmiðla og þess vegna hef ég velt upp þeirri hugmynd hvort mögulegt sé að skoða einhvers konar stuðning við fjölmiðla, einhvers konar fjölmiðlasjóð eða stuðning við svæðisfjölmiðla, eða jafnvel sambærilegt fyrirkomulag eins og nú þekkist varðandi kvikmyndagerðina, að þeir fengju þá endurgreitt ákveðið hlutfall af launakostnaðinum sínum frá ríkinu. Stór hluti kostnaðar við að reka (Forseti hringir.) öfluga fjölmiðla, góða fjölmiðla, er einmitt að vera með fagfólk í vinnu.