140. löggjafarþing — 81. fundur,  30. mars 2012.

staðfesting samnings um afhendingu vegna refsiverðrar háttsemi milli Norðurlandanna.

600. mál
[15:43]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf):

Herra forseti. Ég leita hér heimildar Alþingis til þess að staðfesta samning um norræna handtökutilskipun. Ég vil láta þess getið, herra forseti, að við höfum þegar á hinu háa Alþingi samþykkt lög nr. 12/2010, sem munu taka gildi þegar þessi tillaga hefur verið afgreidd og samþykkt, og það gerir okkur kleift að standa undir þeim skuldbindingum sem samningurinn leggur okkur á herðar.

Með þessum samningi eru gerðar ýmsar breytingar á framsalsfyrirkomulagi milli norrænu landanna. Í fyrsta lagi er hugtakinu „framsal“ skipt út fyrir orðið „afhending“ til að leggja áherslu á að kerfið er gert fljótvirkara og einfaldara en það sem við búum við. Í öðru lagi er nú skylda að afhenda eftirlýstan mann því landi sem gefur út norræna handtökuskipun nema í tilteknum tilvikum. Til dæmis er bannað að afhenda mann ef afbrotið getur sætt sakaruppgjöf í landinu sem beðið er um fullnustu og landið er valdbært til saksóknar vegna afbrotsins samkvæmt eigin löggjöf.

Jafnframt er óleyfilegt að afhenda mann ef hann hefur verið endanlega dæmdur fyrir sömu verknaði í norrænu landi eða aðildarríki ESB og refsingin hefur verið fullnustuð eða er til fullnustu eða það er ekki lengur hægt að fullnusta hana samkvæmt löggjöf landsins sem dæmdi málið. Að lokum skal ekki afhenda mann ef það er, samkvæmt löggjöf landsins sem beðið er um fullnustu, ekki hægt að dæma hann til refsingar vegna aldurs hans fyrir þá verknaði sem norræna handtökuskipunin grundvallast á.

Auk þessara atriða, herra forseti, eru nokkur tilvik tilgreind í samningnum sem gera það að verkum að landið sem beðið er um fullnustu getur neitað að afhenda eftirlýstan mann. Til að mynda er heimilt að synja afhendingar þegar handtökuskipun varðar fullnustu refsingar samkvæmt dómi og eftirlýstur maður er búsettur hér á landi, dvelst hér á landi eða er íslenskur ríkisborgari, gegn því að refsingin sé fullnustuð hér á landi.

Þriðja og ef til vill mikilvægasta breytingin á framsalsfyrirkomulaginu sem samningurinn kveður á um er að þau ráðuneyti sem fara með dómsmál koma ekki að málsmeðferðinni, heldur ákæruvaldið eða önnur stjórnvöld í réttarkerfinu. Þau gefa handtökuskipun út, taka á móti og fjalla um hana og taka ákvörðun um hvort afhending skuli eiga sér stað. Slíkt mál er einungis lagt fyrir dómstól ef viðkomandi samþykkir ekki afhendingu.

Í síðasta lagi má svo nefna að samningurinn gerir það að verkum að það gilda stuttir frestir fyrir málsmeðferð og afhendingu.

Herra forseti. Ég legg til að þegar þessari umræðu sleppir verði tillögunni vísað til hv. utanríkismálanefndar.