140. löggjafarþing — 81. fundur,  30. mars 2012.

fríverslunarsamningur EFTA og Hong Kong, Kína, samningur sömu aðila um vinnumál o.fl.

603. mál
[15:49]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir tillögu um heimild til að fullgilda fyrir hönd okkar Íslendinga fríverslunarsamning millum ríkja EFTA og Hong Kong, Kína. Þann samning undirritaði ég 21. júní 2011 í Liechtenstein.

Þá óska ég jafnframt heimildar til að fullgilda samning milli sömu aðila um vinnumál sem gerður var samhliða fríverslunarsamningnum og til að fullgilda landbúnaðarsamning milli Íslands og Hong Kong, Kína.

Fríverslunarsamningurinn er af svokallaðri annarri kynslóð fríverslunarsamninga. Hann inniheldur þess vegna auk ákvæða um vöruviðskipti líka ákvæði um þjónustuviðskipti, fjárfestingar, hugverkaréttindi, opinber innkaup, samkeppni, viðskipti og umhverfismál, stofnanaákvæði og ákvæði um lausn ágreiningsmála. Á vörusviðinu tryggir samningurinn okkur fríverslunarkjör til Hong Kong, Kína fyrir iðnaðarvörur, sjávarafurðir og unnar landbúnaðarvörur. Með samningnum fá EFTA-ríkin meðal annars aukinn markaðsaðgang hjá Hong Kong, Kína fyrir sjóflutningsþjónustu, fjármálaþjónustu og viðskiptaþjónustu.

Eins og ég gat um í upphafi máls míns var samhliða þessum samningi gerður samningur á millum EFTA-ríkjanna og Hong Kong, Kína um vinnumál. Hann er mikilvægur. Þar sammælast samningsaðilar um að virða meginreglur Alþjóðavinnumálastofnunarinnar og að þeir muni ekki beita reglum um vinnumál sem óréttmætum viðskiptahindrunum. Samningurinn um vinnumál mun öðlast gildi á sama degi og fríverslunarsamningurinn, sem er aðalefni þessarar þingsályktunartillögu.

Tvíhliða landbúnaðarsamningurinn á milli Íslands og Hong Kong, Kína er jafnframt gerður með vísan til fríverslunarsamnings eins og oft er þegar slíkir samningar eru gerðir. Samningurinn tryggir tollfrjálsan aðgang fyrir óunnar landbúnaðarvörur til Hong Kong, Kína og í staðinn mun Ísland meðal annars fella niður toll af ýmsum tegundum matjurta, kornmetis, léttvíni og ávaxtasafa.

Ég legg til, herra forseti, að þegar þessari umræðu lýkur verði þingsályktunartillögunni, sem og þeim sem ég hef þegar mælt fyrir, vísað til hv. utanríkismálanefndar.