140. löggjafarþing — 81. fundur,  30. mars 2012.

fríverslunarsamningur EFTA og Samstarfsráðs Arabaríkjanna við Persaflóa o.fl.

604. mál
[16:01]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf):

Herra forseti. Hér mæli ég fyrir heimild til þess að fullgilda fyrir Íslands hönd fríverslunarsamning, að þessu sinni er hann millum ríkja EFTA og aðildarríkja Flóabandalagsins svokallaða sem er samstarfsráð Arabaríkjanna við Persaflóa. Um leið er leitað heimildar til að fullgilda landbúnaðarsamning milli Íslands og Flóabandalagsríkjanna.

Þessi tillaga var lögð fram á 139. löggjafarþingi en hlaut ekki afgreiðslu. Hún er núna lögð fram að nýju algjörlega óbreytt, það er ein smávægileg breyting í athugasemdum. Ég ætla þess vegna ekki að taka tíma í það að reifa málið upp á nýtt en vísa til framsögu minnar þá.

Ég vil hins vegar geta þess, herra forseti, að í fyrra eftir að tillagan var lögð fram og gengið hafði verið frá samningunum brutust út róstur í einu þessara ríkja, Barein. Þá var fullt samkomulag millum utanríkismálanefndar og framkvæmdarvaldsins að láta samninginn liggja. Mál hafa hugsanlega skipast með örlítið betri hætti í þessu ríki en þó alls ekki viðunandi. Ég velti því fyrir mér þegar ég var að leggja fram fríverslunarsamningana til þingsins hvort ég ætti að láta þennan fylgja með. Ég hafði óformlegt samráð við fulltrúa í utanríkismálanefnd og það varð að samkomulagi að ég mundi leggja málið fram og mæla fyrir því. Svo munum við bara sjá til og vinna okkur sameiginlega til niðurstöðu um hvort málið verður afgreitt frá þinginu.

Herra forseti. Þegar umræðu er lokið um þetta mál legg ég til að því verði vísað til þeirrar góðu nefndar sem um utanríkismál vélar, hv. utanríkismálanefndar.