140. löggjafarþing — 81. fundur,  30. mars 2012.

fríverslunarsamningur EFTA og Svartfjallalands og landbúnaðarsamningur Íslands og Svartfjallalands.

605. mál
[16:07]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf):

Herra forseti. Sá samningur sem ég mæli hér fyrir er millum EFTA og lýðveldisins Svartfjallalands og sömuleiðis er undir landbúnaðarsamningur milli Íslands og Svartfjallalands. Þessi samningur er svolítið öðruvísi en þeir sem ég hef mælt hér fyrir áður, hann er af svokallaðri fyrstu kynslóð. Slíkir samningar fela yfirleitt einungis í sér afnám eða lækkun tolla. Í þessum samningi eru líka almenn ákvæði um vernd hugverka, vernd fjárfestingar, um opinber innkaup og þjónustuviðskipti.

Fríverslunarsamningurinn kveður á um að tollar lækki eða verði í sumum tilvikum algjörlega felldir niður á unnar landbúnaðarvörur, sjávarafurðir og iðnaðarvörur. Ég veit að það gleður hinn athafnasama hæstv. forseta sem nú situr bak mér, að tollar á allar helstu iðnaðarvörur frá Íslandi munu að meginreglu falla niður frá gildistöku samningsins eða þá í sumum tilvikum að afloknu aðlögunartímabili sem lýkur 2018. Sömuleiðis, af því að hann kemur úr sjávarplássi, gleður það hann líka að hið sama gildir um tolla á sjávarafurðum.

Landbúnaðarsamningurinn fjallar um viðskipti með óunnar landbúnaðarvörur. Hann kveður á um að tollar á tilteknum landbúnaðarvörum verði lækkaðir eða í sumum tilvikum algjörlega felldir niður og þannig mun Svartfjallaland til dæmis lækka tolla á íslensku lambakjöti — það er krafa sem við gerum í öllum fríverslunarsamningum — sömuleiðis á skyr og osta. Ísland mun hins vegar á móti fella niður tolla af ýmsum tegundum af grænmeti, ávöxtum, korni og ávaxtasafa. Þessir samningar tveir, landbúnaðarsamningurinn og fríverslunarsamningurinn, munu öðlast gildi á sama degi fari svo að Alþingi samþykki þessar tillögur ríkisstjórnarinnar.

Herra forseti. Ég veit að það er eins og ég sé að endurtaka sjálfan mig en það er einlæg ósk mín að þegar umræðu sleppir um þetta mál verði því vísað til hinnar góðu utanríkismálanefndar.