140. löggjafarþing — 81. fundur,  30. mars 2012.

fríverslunarsamningur EFTA og Svartfjallalands og landbúnaðarsamningur Íslands og Svartfjallalands.

605. mál
[16:12]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Það er alveg rétt hjá hv. þingmanni og formanni utanríkismálanefndar að við eigum að ýta undir sem mest samskipti og viðskipti við Balkanríkin. Svartfellingar hafa sýnt okkur sérstakan áhuga, til dæmis með heimsóknum og það er ekki langt síðan forseti þings Svartfellinga kom hingað á myrkum vetrardegi í snjóstormi og átti góða heimsókn og var aufúsugestur.

Ég veit að hv. þingmaður hefur beitt sér fyrir því sem þátttakandi og fulltrúi Íslands í EFTA-nefndinni að EFTA leggi sem mesta rækt við það að þróa fríverslunarsamningana og gera nýja, það er mjög mikilvægt fyrir okkur. Í þessu tilviki er það líka rétt hjá honum að þetta skapar ákveðin færi að því er varðar þetta tiltekna ríki og ríkin á Balkanskaga. Við höfum óskaplega lítil viðskiptaleg samskipti við þau. Meðal annars er ástæðan sú að þau hafa undanfarna áratugi verið í miklum erfiðleikum og hremmingum og ekki hefur verið auðvelt að eiga við þau samskipti. Þannig get ég þess til dæmis að viðskiptin millum okkar og Svartfellinga á síðasta ári námu ekki nema 23 milljónum, fyrst og fremst lyfjavörur. Það sýnir þó að þar er akur sem við eigum eftir að sá í og uppskera.

Ég undirstrika hins vegar að samningar af þessu tagi, jafnvel þó að viðskiptalegt mikilvægi sé ekki endilega svo mikið núna, þjóna þeim tilgangi að tryggja að Ísland sitji við sama borð og þeir sem íslensk fyrirtæki keppa við í löndum ESB og hinna EFTA-ríkjanna.