140. löggjafarþing — 81. fundur,  30. mars 2012.

ákvörðun EES-nefndarinnar nr. 20/2012 um breytingu á IX. viðauka við EES-samninginn.

610. mál
[16:25]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf):

Frú forseti. Á sínum tíma heimilaði ríkisstjórnin fulltrúum Íslands í sameiginlegu EES-nefndinni að taka ákvörðun sem ber númerið 20/2012. Hér leita ég heimildar Alþingis til þess að staðfesta þá ákvörðun. Hún var tekin með stjórnskipulegum fyrirvara, tillagan gengur út á að aflétta honum.

Ákvörðun nr. 20/2012 fellir inn í samninginn reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins EB nr. 1060/2009 og varðar lánshæfismatsfyrirtæki. Í reglugerðinni eru settar reglur sem tryggja eiga að öll lánshæfismöt sem gefin eru út af matsfyrirtækjum innan Evrópusambandsins séu unnin af matsfyrirtækjum sem lúta ströngustu reglum. Þau þurfa jafnframt að vera af sambærilegum gæðum og meginmarkmið reglugerðarinnar er að tryggja stöðugleika fjármálamarkaða og fjárfesta. Settar eru kröfur með þessum reglum sem matsfyrirtæki sem skráð eru innan ESB þurfa að uppfylla.

Einnig eru tilgreindar þær kröfur sem standa á matsfyrirtækjum sem skráð eru utan sambandsins. Þá eru sömuleiðis settar tilteknar takmarkanir á notkun banka og annarra fjármálastofnana á lánshæfismötum. Eftirlit með matsfyrirtækjum og starfsemi þeirra innan Evrópu án tillits til þess hvort þau eru evrópsk, hafa evrópska staðfestu eða utan þess, er sömuleiðis hert verulega. Þá eru líka settar fram kröfur sem varða skipulag og starfsemi matsfyrirtækja eins og sjálfstæði, hagsmunaárekstrar, eftirfylgni og innri gæðastjórnun.

Eins og jafnan kalla ákvarðanir sem teknar eru með stjórnskipulegum fyrirvara á lagabreytingar og það er andlag fyrirvarans upphaflega. Þess vegna mun verða lagt fram frumvarp á næsta löggjafarþingi sem svarar þeim kröfum sem gerðar eru á tilskipuninni og sá sem fram leggur verður hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra enda er málið á hans könnu. Ég vil líka að fram komi að ekki er gert ráð fyrir að þessi innleiðing hafi í för með sér teljandi efnahagslegar eða stjórnsýslulegar afleiðingar aðrar en þær að treysta innri stoðir fjármálamarkaðanna.

Ég legg til, virðulegi forseti, að þegar umræðunni sleppir verði tillögunni vísað til hv. utanríkismálanefndar.