140. löggjafarþing — 81. fundur,  30. mars 2012.

ákvörðun EES-nefndarinnar nr. 78/2011 um breytingu á IX. viðauka við EES-samninginn.

621. mál
[16:42]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf):

Frú forseti. Að lokum leita ég hér heimildar Alþingis til þess að staðfesta fyrir hönd Íslands ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar sem merkt er 78/2011. Með því yrði þá felld inn í EES-samninginn tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins sem auðkennd er 2009/138/EB. Hún fjallar um stofnun og rekstur fyrirtækja á sviði vátrygginga en sömuleiðis á sviði endurtrygginga.

Ég veit að það vekur marga hv. þingmenn til umhugsunar þegar ég rek hið þríþætta efni tilskipunarinnar. Í fyrsta lagi er um að ræða reglur um viðurkennda eiginfjárliði, sömuleiðis útreikning vátryggingarskuldar og að síðustu útreikning á gjaldþolskröfum.

Í öðru lagi er hér um að ræða reglur um virka áhættustýringu, greiningu á áhættu, eigin áhættu og gjaldþolsmat sem og reglur um verklag eftirlitsstjórnvalda við eftirlit með vátryggingafélögum og sömuleiðis greiningu á veikleikum þeirra og áhættu.

Í þriðja lagi varðar efni tilskipunarinnar líka reglur um opinbera upplýsingagjöf og þá ekki síst upplýsingagjöf til eftirlitsaðila, og mætti þá minna hér á hin ágætu orð hv. þm. Péturs H. Blöndals sem í þessu efni mundi kannski vera að hnika til svolítið betri vegar. Það er fyrirhugað að hinn mikilvirki og afkastamikli hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra leggi líka fram lagafrumvarp til að innleiða ákvæði þessarar tilskipunar en mun þó ekki gera það fyrr en á næsta löggjafarþingi. Það er okkur öllum sömuleiðis gleðiefni að ekki er gert ráð fyrir því að þessar lagabreytingar muni hafa umtalsverðan kostnað í för með sér hvað þá heldur miklar stjórnsýslulegar afleiðingar hér. Hér er um að ræða hefðbundna afléttingu á stjórnsýslulegum fyrirvara sem settur var við ákvörðun sem Ísland stóð að innan sameiginlegu EES-nefndarinnar.

Frú forseti. Ég hef nú lokið við að mæla fyrir þessum EES-málum og legg til að þetta mál verði sent rakleiðis nákvæmlega sömu leið og hin fyrri að lokinni þessari umræðu og beint til hv. utanríkismálanefndar.