140. löggjafarþing — 81. fundur,  30. mars 2012.

landlæknir og lýðheilsa.

679. mál
[17:13]
Horfa

Frsm. meiri hluta velfn. (Álfheiður Ingadóttir) (Vg):

Frú forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um landlækni og lýðheilsu, sem átta af níu nefndarmönnum í velferðarnefnd flytja. Tilgangur frumvarpsins er að taka af allan vafa, sem við reyndar teljum engan vera, um að landlæknir skuli fá öll þau gögn og upplýsingar sem hann telur sig þurfa vegna mikilvægs eftirlitshlutverks sem honum er falið með lögum.

Því er ekki að leyna að frumvarpið á rætur að rekja til afstöðu Læknafélags Íslands sem skaut skildi fyrir lýtalækna í upphafi árs sem neituðu að afhenda landlækni upplýsingar um brjóstaaðgerðir í kjölfar PIP-hneykslisins. Þeirri deilu var vísað til Persónuverndar og fyrir velferðarnefnd var fullyrt að niðurstaða mundi liggja fyrir 7. febrúar sl. Nú erum við komin langleiðina með mars og greinilegt að það hefur ekki gengið eftir. Landlæknir hefur ekki fengið þessi gögn og það er í raun óþolandi staða sem varðar ekki bara þetta einstaka mál sem ég vakti hér máls á, þetta er algert prinsippmál og spurning um hvers virði eða til hvers lög um landlækni og lýðheilsu eru ef verkfærin eru tekin af embættinu sem eru til þess ætluð að hann uppfylli skyldur sínar.

Frú forseti. Markmið laganna um landlækni og lýðheilsu er að stuðla að heilbrigði landsmanna, m.a. með því að efla lýðheilsustarf og tryggja gæði heilbrigðisþjónustu. Til þess að ná því markmiði er landlækni einmitt falið að hafa eftirlit með heilbrigðisþjónustu og heilbrigðisstarfsmönnum. Í 7. gr. laganna er kveðið á um rétt landlæknis til að krefja heilbrigðisstarfsmenn og heilbrigðisstofnanir um nauðsynlegar upplýsingar og gögn til þess að sinna þessu eftirlitshlutverki. Heilbrigðisyfirvöld, þ.e. velferðarráðuneytið og landlæknir, telja ótvírætt að læknum beri skylda til að afhenda landlækni þau gögn sem hann telur nauðsynlegt að sinna eftirlitshlutverks síns vegna, þar með taldar persónuupplýsingar.

Þetta, frú forseti, er ekkert nýtt. Í læknalögum hafa ætíð verið ákvæði um eftirlit landlæknis með læknum og um skyldu þeirra til að afhenda honum upplýsingar. Hægt er að vitna aftur til laga frá fyrst 1911, síðan 1932, 1969 og svo núgildandi laga um landlækni frá 2007.

Frú forseti. Heimildir landlæknis í lögum til að afla upplýsinga vegna eftirlits hafa verið svo rúmar frá upphafi að við teljum það ótvíræða skyldu lækna og heilbrigðisyfirvöld telja það svo að skylda lækna hefur í þessum lögum verið talin taka til afhendingar persónugreinanlegra upplýsinga án þess að samþykkis hins skráða þurfi að afla.

Í þessu litla frumvarpi, frú forseti, er lagt til að skilið sé á milli persónugreinanlegra upplýsinga sem landlæknir aflar annars vegar vegna eftirlitsskyldu sinnar og eftirlitshlutverks og þær upplýsingar sem þannig er aflað skuli gerðar ópersónulegar eða þeim eytt að loknu eftirlitinu. Um slíkar upplýsingar er ákvæði að finna í 7. gr. laga um landlækni. Í 8. gr. hins vegar, og þar skal skilið á milli, eru persónugreinanlegar upplýsingar sem aflað er í þeim tilgangi að halda tilteknar skár, persónugreinanlegar skrár sem ekki verður eytt, til að mynda fæðingarskrá, krabbameinsskrá, vistunarskrá heilbrigðisstofnana, skrá um sykursýki og fleira sem tilgreint er í 8. gr. laganna.

Frú forseti. Hér er lagt til að í ákvæðinu um skyldu heilbrigðisstarfsmanna til að afhenda landlækni gögn og upplýsingar verði kveðið nánar á um meðferð persónugreinanlegra upplýsinga sem aflað er vegna eftirlitsins og þannig að skorður eru settar við varanlegri varðveislu þeirra. Eins og ég sagði áðan skal þeim eytt eða þær gerðar ópersónugreinanlegar og eftirlitsverkefninu skal þá lokið og það mun ekki standa yfir nema í afmarkaðan tíma sem frekar er talinn í mánuðum en árum. Um upplýsingar sem varðveittar eru til frambúðar hins vegar er fjallað í 8. gr.

Frú forseti. Þetta mál hefur margoft verið rætt á fundum velferðarnefndar með fulltrúum frá Læknafélagi Íslands, frá Lýtalæknafélaginu, frá landlækni og frá velferðarráðuneyti, fundum með lögmanni þeirra kvenna sem nú lögsækja lækni eða lækna vegna PIP-púðamálsins, við fulltrúa kvenna sem þar eiga í hlut. Á þessu var sérstaklega tekið í nefndaráliti 1. minni hluta vegna heilbrigðisstarfsmanna þar sem kemur fram að nefndin telur engan vafa leika og engar undantekningar eigi að vera á þessari skyldu lækna til að afhenda landlækni persónugreinanlegar upplýsingar. En hér, frú forseti, er kveðið nánar á um það hvernig með þær upplýsingar skal farið. Þeim skal eytt eftir að eftirlitshlutverkinu er lokið.

Eins og ég segi hefur málið verið lengi á borðum hv. velferðarnefndar og það er flutt af átta af níu nefndarmönnum. Ég legg svo til að því verði vísað beint til 2. umr.