140. löggjafarþing — 83. fundur,  16. apr. 2012.

aðkoma ESB að dómsmáli um Icesave.

[15:02]
Horfa

efnahags- og viðskiptaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Í fyrsta lagi vil ég láta það koma skýrt fram að ég er sammála því svari sem var sent til dómsforsetans, enda var það undirbyggt með samráði við málsvarnarteymi okkar og vel að því staðið. Þar var samstaða um að ekki væri skynsamlegt af Íslands hálfu að leggjast gegn þessari meðalgöngu Evrópusambandsins úr því að Evrópusambandið hafði á annað borð farið fram á það. Ég tel mikilvægt að varðveita samstöðuna á bak við það hvernig við stöndum að málum af okkar hálfu í þeim afdrifaríku málaferlum sem þar eru í vændum þannig að ég mæli frekar með því að allir hv. þingmenn hafi í huga að þetta tengist afar stóru, erfiðu og afdrifaríku máli fyrir Ísland. Kannski er æskilegt að menn reyni að halda aftur af sér í löngun sinni til að gera út á þetta sérstaklega pólitískt.

Ég stend hins vegar við það sem ég hef sagt að þetta var ekki jákvætt innlegg í andrúmsloftið í samskiptum okkar við Evrópusambandið og það er hin pólitíska hlið á þessu máli. Ég er hins vegar ekki talsmaður þess að menn rjúki upp til handa og fóta út af þessu einstaka máli. Ég bendi á að við Íslendingar höfum sjálfir krafist þess að málum af þessu tagi væri haldið aðgreindum. Við höfum oft áður á undanförnum missirum lent í því að gætt hefur tilhneigingar til að draga deilumál okkar út af einstökum hlutum inn á óskyldan vettvang og nægir þar að minna á Icesave-deiluna og samstarf okkar við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn eða Icesave-deiluna og aðildarviðræður við Evrópusambandið, makríldeilu og aðildarviðræður við Evrópusambandið og nú þetta.

Hið sama gildir hér að mínu mati. Við eigum að vera sjálfum okkur samkvæm og við eigum ekki að blanda óskyldum hlutum saman í þessum efnum. Við værum afar litlu nær ef við litum upp núna og frestuðum þessum viðræðum og settum þær á ís áður en farið væri að reyna á grundvallarhagsmuni okkar í þeim köflum viðræðnanna sem mestu máli skipta. Ég hef ekki skipt um skoðun í þeim efnum að það sem við eigum að leggja höfuðáherslu á núna og á næstunni er að krefjast (Forseti hringir.) þess að viðræður um sjávarútveg, landbúnað og aðrar slíkar grundvallarkafla í viðræðunum opnist þannig að við verðum einhverju nær eftir að búið er að gera það og farið er að reyna á okkar eiginlegu gundvallarhagsmuni í viðræðunum.