140. löggjafarþing — 83. fundur,  16. apr. 2012.

aðkoma ESB að dómsmáli um Icesave.

[15:04]
Horfa

Ólöf Nordal (S):

Virðulegi forseti. Ég er að spyrja um pólitískar afleiðingar þessa máls, ekki að biðja um lagatæknileg svör eins og hæstv. ráðherra gaf áðan. Ég er að spyrja um pólitískar afleiðingar þess að Evrópusambandið ákveður að blanda sér í tvíhliða viðræður. Evrópusambandið ákvað að gera það. Þar með hefur þetta mál breyst. Þar með er komið tilefni til þess að Alþingi taki málið upp. Þar með er komin ástæða til þess að þingið velti fyrir sér hvort halda eigi áfram með þessar viðræður. Er hæstv. ráðherra virkilega þeirrar skoðunar að þetta hafi engin áhrif á aðildarviðræðurnar, er það virkilega svo?

Ég vil einnig spyrja hæstv. ráðherra: Hefur þetta mál verið rætt í ríkisstjórn? Var þetta formlega tekið upp í ríkisstjórn? Hver er afstaða ríkisstjórnarinnar? Við skulum hafa í huga að niðurstöður ríkisstjórnarfundar eru mjög til umræðu á öðrum vettvangi.