140. löggjafarþing — 83. fundur,  16. apr. 2012.

aðkoma ESB að dómsmáli um Icesave.

[15:05]
Horfa

efnahags- og viðskiptaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Jú, frú forseti. Það er pólitísk hlið á þessu máli. Ég hef tjáð mig um hana og hef engu við það að bæta. Ég hef tjáð mig alveg sæmilega skýrt á íslensku um hana. Ég tel að þetta sé ekki gott upp á andrúmsloftið í samskiptum okkar við Evrópusambandið en það snýr auðvitað almennt að þeim samskiptum. Heimurinn heldur áfram þrátt fyrir æsinginn hér á þingi og ef hv. þingmaður hefur bundið vonir við að hún togaði út úr mér svör um það að slíta ætti viðræðunum í hvelli, slíta ríkisstjórnarsamstarfinu og boða til kosninga á morgun þá verð ég að hryggja hv. þingmann. Hún fær engin slík svör. Ég tel að þetta sé ekki mál af því tagi að það gefi tilefni til slíkra upphlaupa eða slíks æsings.

Málið hefur að sjálfsögðu verið rætt í ríkisstjórn og í ríkisstjórn voru menn sammála um greininguna á þessu að það bæri að hlíta ráðleggingum málsvarnarteymisins og svara í samræmi við það. Það er það sem ég tel að við eigum að hafa í öndvegi. Það er að vanda okkur við framgöngu okkar í þessum mikilsverðu málum sem eru núna að sigla til dóms og getur varðað Ísland miklu hvernig tekst að halda á. Ég tel að það hafi verið undirbúið af kostgæfni og utanríkisráðherra hefur lagt sig fram um að hafa breiða samstöðu á bak við málsvarnarhópinn og skipa hann þannig og ég tel að við eigum að standa saman um þá samstöðu. Það gildir líka um stjórnarandstöðuna.