140. löggjafarþing — 83. fundur,  16. apr. 2012.

aðildarviðræður við ESB.

[15:09]
Horfa

efnahags- og viðskiptaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Herra forseti. Hv. þingmaður snýr út úr orðum mínum. Ég dró ekkert samasemmerki á milli stjórnarsamstarfsins og þessara hluta að öðru leyti. Ég lét það að vísu eftir mér að geta mér í hug hv. þm. Ólafar Nordal hvaða svör hún hefði helst viljað (Gripið fram í.) fá frá mér um stórtíðindi dagsins. Það á ekki að lesa neitt annað út úr því þannig að ég bið hv. þingmann að taka þetta bara heim með sér og endurskoða það.

Ég tel að það skipti mestu máli að við höfum þá það út úr þessum leiðangri, því nóg er hann svo sem búinn að kosta og næga orku er hann búinn að taka og hefur ekki endilega verið auðveldur öllum, að við Íslendingar verðum þá einhverju nær. Þetta eru grundvallarspurningar sem þrátt fyrir allt þarf að svara að lokum. Hvernig verður framtíðartengslum okkar við Evrópusambandið háttað? Sú spurning yfirgefur okkur ekki ef við fáum ekki einhvern botn í þetta mál. Mér fannst það satt að segja dálítið merkileg hugmynd að þetta leysist allt saman með því að setja málið á ís í nokkra mánuði. Verður þá Evrópusambandið aftur orðið gott eftir nokkra mánuði, ef það er sett á ís í nokkra mánuði? Það er ekki mikil lausn. Mér finnst heiðarlegra að menn segi bara af eða á. Annaðhvort á að hætta þessu og þetta er búið og það á aldrei að tala um þetta meira eða menn vilja halda áfram.

Ég tel að mestu máli skipti að fara ekki út af sporinu og muna hvað þetta snýst um. Það er að láta reyna á grundvallarhagsmuni Íslands. Við þurfum að fá botn í það svo að við þurfum ekki að þvarga um það meir hvort í boði séu í samningum einhverjar þær sérlausnir og einhverjar þær útfærslur varðandi grundvallarhagsmuni Íslands að það teldist ásættanlegt eða ekki. Þegar búið er að reyna það þá þurfum við ekki að gera það oftar. Þá gætum við sett þetta mál niður til langrar framtíðar og það væri að sjálfsögðu betri útkoma en að setja þetta á ís í einhvern óráðinn tíma og vera engu nær. Þá fyrst væri þessi leiðangur orðinn til lítils að mínu mati.

Ég tel að við eigum ekki að taka neinar skyndiákvarðanir, við eigum sem sagt ekki að fara á taugum. Við eigum bara að halda höfðinu köldu og hugsa um það hvað varðar Ísland í þessum málum. Það eru annars vegar málaferlin og gera ekki það sem getur veikt okkar stöðu í þeim og ræða hitt svo bara yfirvegað.