140. löggjafarþing — 83. fundur,  16. apr. 2012.

mannréttindamál í Kína.

[15:16]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf):

Frú forseti. Almennt um þetta mál er það að segja að íslensk stjórnvöld hafa margsinnis tekið upp mannréttindamál gagnvart alþýðulýðveldinu Kína í áranna rás. Ég minnist þess líka að ráðherrar sem hafa farið til Kína hafa sérstaklega rætt málefni Tíbets, ég hef gert það og segi alveg hreinskilnislega að ég veit ekki hvernig dagskrá minni með þeim ágætu gestum sem hingað koma síðar í þessari viku er háttað. Ég tel þó alveg víst að á einhverju stigi þess máls verði mannréttindamál rædd. Það höfum við alltaf gert. Þegar ég fór til Kína á síðasta ári sem utanríkisráðherra Íslands voru mannréttindi tekin upp og rædd þar. Mín reynsla af Kínverjum er sú að þeir eru ekki bangnir við að ræða mannréttindi.

Að því er varðar Tíbet sérstaklega get ég ekki tekið afstöðu til þeirrar tillögu sem hv. þingmaður boðar að verði flutt. Ég hef ekki séð hana. Ég hef eftir föngum kynnt mér stöðu þessara tíbesku munka og nunna sem í vaxandi mæli hafa gripið til þess óyndisúrræðis í þröngri stöðu að taka líf sitt með þessum hræðilega hætti. Það gerði ég að ábendingu eins af hv. þingmönnum Hreyfingarinnar.

Ég hef líka eftir föngum reynt að kynna mér með hvaða hætti til dæmis Dalai Lama hefur sett fram sínar kröfur gagnvart kínverska alþýðulýðveldinu og einnig hvaða mótrök hafa verið sett fram þar. Ég veit ekki betur en að staðan sé til dæmis þannig að hann geri í reynd ekki kröfu um sjálfstæði Tíbets. Það þótti mér merkilegt þegar ég komst að raun um það. Ég get hins vegar fullvissað hv. þingmann um að eins og hingað til er það einn af burðarásunum í stefnu íslenska ríkisins að berjast fyrir mannréttindum hvar sem er. Hv. þingmaður getur sums staðar séð þess stað í verkum mínum og ræðum. (Gripið fram í.)