140. löggjafarþing — 83. fundur,  16. apr. 2012.

auðlindagjöld.

[15:31]
Horfa

fjármálaráðherra (Oddný G. Harðardóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrirspurnina. Fyrst af öllu vil ég segja að þegar við horfum á auðlindir þjóðarinnar finnst mér mikilvægt að við höldum svipaðri stefnu, hvort sem auðlindin er í sjó, landi eða lofti. Mér finnst mikilvægt, og ég hef lýst því úr þessum ræðustól og víðar, að sú auðlindarenta sem skapast af auðlind þjóðarinnar af þeim sem nýtir hana, af þeim sem hefur sérleyfi á nýtingu auðlinda þjóðarinnar, eigi að renna í ríkiskassann fyrir hönd þjóðarinnar sem síðan útdeilir auðlindarentunni til annarra verkefna.

Hv. þingmaður talar um fyrirtækið Landsvirkjun sem er í ríkiseigu og er þannig samtvinnuð efnahag ríkisins að einhverju leyti. Staða Landsvirkjunar hefur batnað. Eiginfjárstaða Landsvirkjunar hefur vaxið. Ég hef ekki svör við því nákvæmlega, um þær prósentur sem hv. þingmaður nefnir hér. En ég vil leggja á það áherslu að við ættum að horfa til Norðmanna og þeirrar stefnu sem Norðmenn setja varðandi auðlindamál sín og greiðslu arðs af auðlindarentunni og finna út í sameiningu með okkar stefnu, m.a. í orku- og auðlindamálum, hvernig gjaldtakan fer fram af auðlindinni. Mér finnst hún eigi að vera samræmd.

Það er ekki hægt að líkja stöðu sjávarútvegs og stöðu Landsvirkjunar saman á þessari stundu. Ég geri ráð fyrir að hv. þingmaður (Forseti hringir.) spyrji mig og haldi áfram með fyrirspurnir sínar.