140. löggjafarþing — 83. fundur,  16. apr. 2012.

auðlindagjöld.

[15:33]
Horfa

Jón Gunnarsson (S):

Virðulegi forseti. Það var ekki mikið innihald í þessum svörum. Ég vissi ekki á tímabili hvort maður átti að skilja hæstv. ráðherra svo, af því Landsvirkjun er ríkisfyrirtæki, að meðhöndla ætti það með öðrum hætti. Það er kannski stefnan að fara með sjávarútveginn í ríkisrekstur og þá eigi að gera kröfurnar öðruvísi.

Staðreyndin er sú að það er margt sambærilegt með Landsvirkjun, rekstri þess fyrirtækis og íslensks sjávarútvegs í dag. Það er verið að greiða niður skuldir. Það er góð afkoma. Lánshæfismatið er að verða betra. En ef greiddir yrðu 7,5 milljarðar, þá reikna ég með 5,5% ávöxtunarkröfu vegna þess að forsendurnar eru öðruvísi í orkugeiranum eins og hæstv. ráðherra kom inn á, 7,5 milljarðar af 5 milljarða hagnaði, hver yrði þá staða þessa fyrirtækis? (Gripið fram í.) Svo getum við skoðað Orkuveitu Reykjavíkur og fleiri orkufyrirtæki.

Þetta er eitthvað sem ráðherrann verður að svara okkur hér en ekki fara eins og köttur í kringum heitan graut. Finnst henni koma til greina (Forseti hringir.) að þrengja svo að rekstri Landsvirkjunar núna að setja á skattbyrði eða auðlindarentu upp á 7,5 milljarða á þessu ári sem er ekki langt frá því sem (Forseti hringir.) á að fara að leggja á íslenskan sjávarútveg? Finnst henni það koma til greina? Hvaða afleiðingar hefði það fyrir fyrirtækið?