140. löggjafarþing — 83. fundur,  16. apr. 2012.

fyrirkomulag úrskurða í vátryggingamálum.

517. mál
[15:38]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Helgi Hjörvar) (Sf):

Virðulegur forseti. Svo sem kunnugt er er í ráðuneyti efnahags- og viðskiptamála bæði fengist við efnahagsmálin og eins fjármálakerfið og hefur verið nóg að sýsla í hvoru tveggja um margra missira skeið, en þar eru sömuleiðis vistuð málefni vátryggingafélaganna og vátryggingamálin. Ég vil því fá að nota þetta tækifæri til þess að beina aðeins sjónum að þeim og eftirliti með þeim, þá sérstaklega þeim leiðum sem neytendur hafa til þess að áfrýja ákvörðunum vátryggingafélaga. Það er auðvitað ekki síst nauðsynlegt í kjölfar þeirra hremminga sem hér hafa orðið og þeirrar hættu sem skapast á því að neitað sé fleiri kröfum en áður var og að nauðsynlegt sé að skýr leið sé fyrir neytendur til að sækja rétt sinn.

Ef við skoðum með hvaða hætti því er fyrir komið er sannarlega farvegur fyrir neytendur til að sækja sín mál og þeir geta áfrýjað til sérstakrar áfrýjunarnefndar sem er skipuð þremur fulltrúum, einum tilnefndum af ráðherra, einum af vátryggingafélögum og einum af Neytendasamtökunum.

Þegar við skoðum þann málafjölda sem þangað hefur borist síðustu tæpa tvo áratugi eða svo, eða frá 1994, hefur fjölgað talsvert málum sem þangað er skotið, eða úr um 250 og í rúmlega 400, kannski fyrst og fremst vegna þess að fólk er sér meðvitaðra um þennan rétt en áður var.

Á sama tíma virðist af tölfræðinni mega ráða að hlutfallslega séu umtalsvert færri úrskurðir sem falla neytendunum í vil en áður var. Þannig var í byrjun þessa tímabils liðlega helmingur úrskurðanna neytendunum í hag, eða 53%, en mér sýnist nú á seinni árum sé hann orðinn undir 30% mála, kannski 28% held ég að við höfum dæmi um frá því í hittiðfyrra.

Ég vildi þessa vegna spyrja hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra hvort hann telji eitthvert tilefni til þess að endurskoða fyrirkomulagið á þessum áfrýjunum, og hvort einhver ástæða sé til þess að hafa áhyggjur af því að það halli eitthvað á rétt neytenda í ljósi þess að færri úrskurðir falla þeim í vil en áður var eða hvaða skýringar kunni að vera á þessu.