140. löggjafarþing — 83. fundur,  16. apr. 2012.

fyrirkomulag úrskurða í vátryggingamálum.

517. mál
[15:41]
Horfa

efnahags- og viðskiptaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Það er kannski rétt að gera örstutta grein fyrir störfum úrskurðarnefndar í vátryggingamálum áður en fyrirspurninni sem slíkri er svarað beint.

Nefnd þessi starfar samkvæmt samkomulagi milli efnahags- og viðskiptaráðuneytis, Neytendasamtakanna og Samtaka fjármálafyrirtækja, þar sem áður var Samband íslenskra tryggingafélaga í stað. Nefndin tók til starfa 1994 og hefur starfað óslitið síðan þannig að komin er nokkur reynsla á störf hennar. Þarna sitja þrír fulltrúar eins og fyrirspyrjandi nefndi og jafnmargir til vara, sem sagt fulltrúar aðila samkomulagsins og skulu þeir vera löglærðir og valdir til tveggja ára í senn.

Samþykktir fyrir þessa nefnd voru birtar með auglýsingu í Stjórnartíðindum á árinu 2005. Þar er kveðið á um störf nefndarinnar.

Nefndin úrskurðar um ágreining varðandi bótaskyldu, þar með talið sök og sakarskiptingu milli málskotsaðila og vátryggingafélags sem hefur starfsleyfi hér á landi. Jafnframt úrskurðar nefndin um ágreining sem varðar ákvæði laga nr. 30/2004, um vátryggingarsamninga. Nefndin úrskurðar um bótafjárhæðir að fengnu sérstöku samþykki allra málsaðila ef slíku er til að dreifa.

Málskotsaðili getur verið vátryggingartaki, vátryggður, þar á meðal meðvátryggður, rétthafi bóta, tjónþoli og hver sá annar er telur sig eiga rétt til bóta úr vátryggingu eða á annarra hagsmuna að gæta vegna vátryggingarsamnings samkvæmt lögum um vátryggingarsamninga.

Rétt er að taka fram að fjöldi málskota fyrir úrskurðarnefnd hefur aukist mjög mikið. Það verður að hafa í huga þegar hlutföll eru rædd. Ástæður þess má væntanlega rekja meðal annars til aukinnar þekkingar á rétti aðila til þess að skjóta málum fyrir nefndina. Með öðrum orðum, starfsemi hennar er nú betur þekkt og aðilum kunn. Þetta stafar meðal annars frá því að unnið hefur verið talsvert kynningarstarf á tilvist nefndarinnar hjá vátryggingafélögum, samtökum neytenda og lögmenn eru betur upplýstir um þennan valkost en áður var.

Þá ber þess að geta að vátryggingafélög hafa nú nýlega tekið upp það verklag að í svarbréfum þar sem bótagreiðslum er hafnað kemur fram staðlaður texti sem vísar til þess að lögum samkvæmt sé unnt að vísa málum til nefndarinnar, samanber ákvæði laga um vátryggingarsamninga. Þannig að öllum sem ekki fá samþykki eða jákvæða úrlausn sinna mála þegar þeir snúa sér til tryggingafélags síns er bent sérstaklega á þennan kost. Það á án nokkurs vafa þátt í því að mun fleiri hafa nú nýtt sér hann en áður.

Þá má einnig geta þess að þær breytingar sem voru gerðar á samþykktum tjónanefndar vátryggingafélaganna hafa væntanlega talsverð áhrif á fjölda málskota. Haustið 2008 hætti tjónanefndin að taka önnur mál en þau sem snúa að bifreiðatjónum og fjölgaði þar með talsvert málum sem skotið var til úrskurðarnefndar í vátryggingamálum.

Það er hins vegar rétt sem hér kom fram hvað varðar hlutfall þeirra mála þar sem niðurstaða er málskotsaðila í vil, að þar hefur orðið umtalsverð fækkun á frá því að vera yfir 43% tilvika árið 1995 í um 27,7% tilvika árið 2010.

Þá er spurningin um skýringar á þessu. Það er nærtækt að vísa til þess sem áður sagði um aukna vitund um rétt til málskots, þannig að það séu ekki aðeins aðilar sem telja beinlínis á sér brotið eða eru vissir um að þeir eru ekki að fá sanngjarna úrlausn sinna mála, heldur einnig þeir sem telja jafnvel að það komi ekki að sök að láta nefndina glíma við málið. Rétt er að hafa í huga að málskotsgjaldið er einungis 6 þús. kr. þannig að ekki er miklu til kostað að láta nefndina taka málin fyrir.

Það má einnig velta fyrir sér í því ljósi hvort það hafi í vaxandi mæli verið svo að málskotsaðilar hafi ekki lagt mikla vinnu í rökstuðning sinn af þessum sökum, heldur sent málin með tiltölulega einföldu hætti til nefndarinnar til að fá þar niðurstöðu. Það dregur að sjálfsögðu aftur úr líkunum á því að niðurstaðan falli þeim í vil ef málin eru send inn með tiltölulega einföldum eða jafnvel minni háttar rökstuðningi.

Að þessu öllu metnu er það niðurstaða efnahags- og viðskiptaráðuneytisins að í aðalatriðum hafi fyrirkomulag úrskurðarnefndarinnar reynst vel. Málskot fyrir nefndinni er ódýrt og fljótlegt úrræði fyrir aðila til að fá úr ágreiningi sínum skorið. Af þeim sökum er það mat okkar, að svo stöddu að minnsta kosti, að (Forseti hringir.) ekki séu ríkar ástæður til að endurskoða fyrirkomulag þessara mála.