140. löggjafarþing — 83. fundur,  16. apr. 2012.

fyrirkomulag úrskurða í vátryggingamálum.

517. mál
[15:48]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Helgi Hjörvar) (Sf):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svarið og sömuleiðis hv. þm. Guðlaugi Þór Þórðarsyni fyrir innlegg hans. Ég held að ýmislegt megi fram færa sem geti skýrt að hluta til að minnsta kosti þá þróun sem orðið hefur, til að mynda þá breytingu sem hæstv. ráðherra vísaði til með tjónanefndirnar. Ég fagna því sérstaklega að í synjunarbréfum tryggingafélaganna sé nú skýrt tekið fram til neytenda að þeir hafi rétt á því að leita þessa úrræðis.

Ég vil hins vegar taka undir með hv. þm. Guðlaugi Þór Þórðarsyni að málið getur þarfnast frekari skoðunar vegna þess að við getum auðvitað ekki horft fram hjá því að í þessari atvinnugrein eins og mörgum öðrum hafa félög þurft að glíma við mikla rekstrarerfiðleika og fjárhagslega endurskipulagningu. Slíkar grundvallarbreytingar í rekstri félaga geta kallað á aðra meðferð í bótamálum og önnur viðbrögð við kröfum og full ástæða til þess að aðgát sé höfð. Ég hvet hæstv. ráðherra kannski fyrst og fremst til að leitað verði eftir því við Neytendasamtökin, sem eiga fulltrúa í nefndinni og eru auðvitað helsti hagsmunagæsluaðili neytendanna í málinu, að skoða málið þannig að góð sátt sé um fyrirkomulagið gagnvart þeim aðilum.