140. löggjafarþing — 83. fundur,  16. apr. 2012.

innlán heimila og fjármagnstekjur.

720. mál
[16:00]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að hrósa hæstv. ráðherra fyrir eitt; svör hans voru mjög skýr. Ég man bara ekki eftir jafnskýrum svörum í annan tíma frá hæstv. ráðherra. En svörin voru nei og meira nei. Það veldur mér áhyggjum.

Ég vil aðeins fara yfir röksemdir hæstv. ráðherra. Hann nefnir að lítill hvati sé til þess að leggja fyrir vegna lágra vaxta. Ekki eykst hvatinn með því að hækka skattana. Það segir sig sjálft. Ef hvatinn er lítill vegna lágra vaxta gerir hæstv. ráðherra illt verra með skattstefnu sinni.

Hæstv. ráðherra sagði að yfirdráttarlán hefðu verið greidd niður. Ég vek athygli á nýlegum fréttum um að yfirdráttarlán hafa náð sömu hæðum og þau voru í frá því að þau voru mest.

Síðan nefnir hæstv. ráðherra að þessari stefnu sé fylgt til að styrkja ríkissjóð.

Vandinn er sá, virðulegi forseti, að ef skattar eru of háir hafa sérstaklega þeir aðilar sem eiga meiri fjármunir möguleika á að koma sér undan þeim, m.a. með því að flytja til annarra landa. Það kom til dæmis fram í hv. efnahags- og viðskiptanefnd þegar við fjölluðum um eignarskattinn, sem kallaður er auðlegðarskattur. Þar komu fulltrúar frá öllum endurskoðunarskrifstofunum og sögðu frá því að þeir væru að aðstoða fólk sem vildi flytja úr landi út af þeim skatti. Hvað þýðir það? Það þýðir að við fáum engar tekjur. Engar tekjur. Það er alveg sama þótt við getum lokað ýmsa fjármuni inni með gjaldeyrishöftunum, það eru sérstaklega þeir sem hafa mest á milli handanna sem hafa mesta möguleika á að fara til annarra landa. Það þýðir að ríkissjóður, þeir sem hér búa, fá ekki þær tekjur heldur einhver annar (Forseti hringir.) ríkissjóður.