140. löggjafarþing — 83. fundur,  16. apr. 2012.

frekari aðgerðir gegn svartri atvinnustarfsemi.

501. mál
[16:05]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Lúðvík Geirsson) (Sf):

Virðulegi forseti. Það mál sem hér er til umræðu hefur átt sér nokkurn aðdraganda. Fyrir tæpu ári, sumarið 2011, stóð embætti ríkisskattstjóra með fulltingi fjármálaráðuneytis að sérstöku tímabundnu átaksverkefni til að sporna við svartri atvinnustarfsemi undir yfirskriftinni „Leggur þú þitt af mörkum?“ Þetta átak var unnið í nánu samstarfi við aðila vinnumarkaðarins, Alþýðusambandið og Samtök atvinnulífsins.

Ég lagði fram fyrirspurn um miðjan október sl. þar sem ég spurði meðal annars út í helstu niðurstöður átaksins, áætlaðan tekjuauka ríkissjóðs og hvort framhald yrði á verkefninu og öðrum samræmdum aðgerðum gegn skattsvikum. Svar ráðherra barst um miðjan nóvember. Helstu niðurstöður voru þær að samfélagið í heild yrði árlega af nærri 14 milljörðum kr. í tekjur vegna svartrar atvinnustarfsemi, þar af má áætla liðlega 6 milljarða sem færu annars í ríkissjóð. Hér er eingöngu miðað við skattsvik rekstraraðila sem eru með undir 1 milljarði í veltu, en ef litið er á alla rekstraraðila er áætlað tap ríkissjóðs allt að 10 milljarðar á ári.

Virðulegi forseti. Þetta eru stórar fjárhæðir.

Varðandi framhald málsins voru svörin nokkuð óljósari, en þó kom fram skýr vilji ráðherra til að beina þeim tilmælum til ríkisskattstjóra og skattrannsóknarstjóra að þeir ynnu enn frekar saman í samræmdum aðgerðum á þessu sviði. Til að fylgja þessu máli enn frekar eftir, m.a. í framhaldi af upplýsingum sem fram hafa komið um skort á heimildum fyrir einföld og skýr úrræði í skatteftirlitsmálum, lagði ég í byrjun febrúar sl. fram frekari fyrirspurnir um þessi mál. Frá því að ég lagði þær fyrirspurnir fram hefur orðið nokkur umræða um þau í fjölmiðlum og í framhaldi af því lagði hv. þm. Skúli Helgason með fleiri þingmönnum, þar á meðal mér, fram tillögu til þingsályktunar um bætt skattskil þar sem tekið er á þeim málum sem fyrirspurnir mínar beinast meðal annars að, þ.e. að Alþingi feli fjármálaráðherra að leggja fram aðgerðaáætlun um bætt skattskil og kannað verði hvort gera þurfi lagabreytingar til að draga úr og vinna gegn undanskotum.

Í framhaldi af framansögðu spyr ég hæstv. fjármálaráðherra eftirfarandi spurninga um frekari aðgerðir gegn svartri atvinnustarfsemi:

Er vinna hafin við gerð frumvarps til að innleiða virk og einföld eftirlitsúrræði til að taka á og koma í veg fyrir brot á formreglum skattskila og skila á öðrum gjöldum, eins og lagt er til í skýrslu um sameiginlegt átaksverkefni á vegum ríkisskattstjóra, Alþýðusambandsins og Samtaka atvinnulífsins gegn svartri atvinnustarfsemi?

Hvenær má vænta að frumvarp í þessa veru verði lagt fyrir Alþingi?

Eru í undirbúningi eða fyrirhugaðar frekari aðgerðir af hálfu ríkisskattstjóra til að sporna við svartri atvinnustarfsemi?

Verður leitað samstarfs við aðila vinnumarkaðarins í slíkum aðgerðum, líkt og gert var með góðum árangri á síðasta ári?