140. löggjafarþing — 83. fundur,  16. apr. 2012.

frekari aðgerðir gegn svartri atvinnustarfsemi.

501. mál
[16:16]
Horfa

fjármálaráðherra (Oddný G. Harðardóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Skattsvik valda ekki bara tjóni ríkissjóðs heldur valda þau einnig siðrofi í samfélaginu. Þess vegna tek ég undir með hv. þingmanni þegar hann telur æskilegt að sem flestir taki þátt í slíkum aðgerðum sem hér er um rætt, svo sem Samtök atvinnulífsins og Alþýðusamband Íslands.

Eftir því sem rafrænum viðskiptum vex meiri fiskur um hrygg minnka möguleikar á svartri atvinnustarfsemi enda er eftirlitið auðveldara með rafrænum viðskiptum. Þannig munu tækniframfarirnar blessunarlega gera svarta atvinnustarfsemi erfiðari í framkvæmd í framtíðinni, en þannig er það samt að frá hruni hafa seðlar og mynt í umferð aukist frá því að vera um 13 milljarðar í um það bil 30 milljarða. Það vekur mann óneitanlega til umhugsunar og ég tel að hið opinbera ætti frekar að stuðla að því að auka rafræn viðskipti en ekki auðvelda viðskipti með reiðufé. Við ættum að líta til Norðmanna sem hafa frá því snemma á árinu 2011 unnið eftir löggjöf sem gengur út á það að gera kaupanda að þjónustu meðsekan um skattsvik vegna viðskipta með reiðufé, þ.e. ef upp kemst að um skattsvik hafi verið að ræða. Þetta finnst mér mikilvægt, að fylgjast með og athuga hver árangurinn er af þessu. Þarna getum við lært af Norðmönnum en hins vegar er mikilvægt, ásamt þessu og þeim hliðarráðstöfunum sem hafa verið ræddar í þessari umræðu, að halda uppi reglubundnu og venjubundnu eftirliti og að ekki sé slakað þar á. Reglubundið og öflugt skatteftirlit er eina leiðin til að tryggja að skattskilum hraki ekki.