140. löggjafarþing — 83. fundur,  16. apr. 2012.

erlend lán hjá Byggðastofnun.

595. mál
[16:22]
Horfa

fjármálaráðherra (Oddný G. Harðardóttir) (Sf):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrirspurnirnar.

Spurt er: Hvað veitti Byggðastofnun mörgum fyrirtækjum erlend lán árin 2000–2008 og hvar á landinu eru þau fyrirtæki? Því er til að svara að 452 fyrirtæki og einstaklingar í atvinnurekstri hafa fengið erlend lán á tímabilinu; 64 á Austurlandi, 87 á Norðurlandi eystra, 63 á Norðurlandi vestra, 11 á Suðurnesjum, 46 á Suðurlandi, 132 á Vestfjörðum og 49 á Vesturlandi.

Spurt er: Hvað hafa margir af þessum lánasamningum verið endurreiknaðir vegna ólöglegs samningsforms? Svarið er: Enginn af þessum lánasamningum hefur verið endurreiknaður vegna ólöglegs samningsforms. Það er mat Byggðastofnunar að um sé að ræða lögmæt erlend lán.

Síðan er það spurning er varðar jafnræði. Þar er sérstaklega spurt um sprotafyrirtæki sem mörg hver höfðu þann eina kost að fjármagna sig í gegnum Byggðastofnun. Því er til að svara að hefðbundin sprotafyrirtæki eru mjög lítill hluti viðskiptavina stofnunarinnar. Heimildir Byggðastofnunar til lækkunar á höfuðstóli lána skuldara stofnunarinnar takmarkast af 16. gr. reglugerðar um Byggðastofnun, nr. 347/2000, en samkvæmt ákvæðinu er óheimilt að gefa eftir veitt lán í heild eða að hluta. Frá þeirri meginreglu er þó heimiluð undantekning í því tilviki þegar lán eru án haldbærra trygginga. Slíkt er fátítt en eftir fall krónunnar eru nokkur dæmi þess að lán hafi fallið út af veðrétti, einkum þegar um er að ræða erlend lán. Þá er þess að geta að Byggðastofnun hefur tekið þátt í úrvinnslu skuldamála fyrirtækja á grundvelli Beinu brautarinnar en samkomulag um það verkefni gerðu efnahags- og viðskiptaráðuneytið, Félag atvinnurekenda, fjármálaráðuneytið, Samtök atvinnulífsins, Samtök fjármálafyrirtækja og Viðskiptaráð í árslok 2010.

Samkvæmt samkomulaginu er miðað við að heildarskuldsetning fyrirtækis að lokinni úrvinnslu fari ekki fram úr endurmetnu eignar- eða rekstrarvirði þess, hvort sem er hærra, að viðbættu virði annarra trygginga og ábyrgðar fyrir skuldum viðkomandi fyrirtækis. Í 12. lið samkomulagsins er þess getið að stjórnvöld muni leitast við að tryggja að opinberar lánastofnanir, svo sem Byggðastofnun, taki þátt í úrvinnslu skuldamála fyrirtækja á grundvelli samkomulagsins.

Byggðastofnun yfirfór allt lánasafn sitt með hliðsjón af viðmiðum Beinu brautarinnar og hafa tólf fyrirtæki nú þegar fengið lækkun á höfuðstóli sinna lána á þeim forsendum. Enn eru fáein slík mál í afgreiðsluferli. Byggðastofnun hefur frá hruni að öðru leyti beitt sambærilegum eða sömu úrræðum og aðrar lánastofnanir þegar kemur að skuldavanda fyrirtækja vegna hækkunar erlendra lána með það að markmiði að laga greiðslubyrði viðkomandi skuldara að greiðslugetu hans. Það má nefna lengingu lána, svonefnd teygjulán o.fl. Það verður því að telja að viðskiptavinir Byggðastofnunar hafi setið við sama borð og viðskiptavinir annarra lánastofnana sem tekið hafa erlend lán að þessu leyti.

Hyggst ráðherra bregðast við með einhverjum hætti ef samningar sem Byggðastofnun gerði eru allir löglegir o.s.frv.? Það er 4. spurning frá hv. þingmanni og því er til að svara að ekki verður annað séð en að Byggðastofnun hafi staðið rétt að málum og fylgt þeim úrræðum sem tiltæk hafa verið og gilt hafa um aðrar lánastofnanir. Staða viðskiptavina Byggðastofnunar ætti því að vera sambærileg við stöðu viðskiptavina annarra fjármálastofnana. Vanda hvers og eins skuldara, sem stafar af hækkun erlendra lána vegna gengisfalls krónunnar, verður mætt með einstaklingsbundnum úrræðum eins og ég hef þegar lýst hér í máli mínu.