140. löggjafarþing — 83. fundur,  16. apr. 2012.

aðgerðir til lækkunar á húshitunarkostnaði.

631. mál
[16:31]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Einar K. Guðfinnsson) (S):

Virðulegi forseti. Hinn íþyngjandi húshitunarkostnaður sem íbúar sums staðar á landinu hafa glímt við hefur oft verið ræddur í ræðustól Alþingis. Hér er um að ræða mikinn vanda sem hjá um 10% þjóðarinnar, 30–35 þús. manns, sem glíma við þennan mikla húshitunarkostnað. Stundum hefur okkur gengið betur og stundum miðast verr við það að reyna að stemma stigu við þessum mikla kostnaði og því miður hefur þróunin orðið sú undanfarin ár að slegið hefur í bakseglin. Húshitunarkostnaður á þeim svæðum sem oft eru kölluð köld svæði hefur hækkað ár frá ári að raungildi á sama tíma og kjör fólks hafa versnað eins og allir vita.

Þetta hefur auðvitað þýtt að þessi þáttur framfærslunnar hjá fjölmörgum á þessum svæðum er orðinn mjög sligandi, sérstaklega ef við skoðum dreifbýlið sjálft, þ.e. svæðið þar sem búa innan við 200 manns.

Þess vegna var það fagnaðarefni að ríkisstjórnin ákvað á fundi sínum á Ísafirði 5. apríl í fyrra að unnið yrði að því með Samtökum sveitarfélaga á köldum svæðum að leita leiða til að lækka og jafna húshitunarkostnaðinn. Í framhaldi af því var settur á fót starfshópur þar sem í áttu sæti meðal annars fulltrúar þessara svæða auk fulltrúa ríkisstjórnarinnar. Þessi starfshópur skilaði mjög góðu verki, lagði fram greinargóða skýrslu sem birtist á vef iðnaðarráðuneytisins í desember síðastliðnum. Þar gat að líta tillögur til að lækka húshitunarkostnaðinn. Samkvæmt þeim tölum sem ég hef undir höndum og birtast í skýrslunni sýnast mér að þær tillögur sem nefndin leggur til í skýrslunni feli í sér lækkun á húshitunarkostnaði um þriðjung, 32% eða þar um bil. Þá er ég að vísa til niðurgreiddra veitna í þéttbýli og dreifbýli.

Tillögurnar fela í sér þrenns konar aðgerðir. Í fyrsta lagi er lagt til að grundvallarbreyting verði gerð á niðurgreiðslukerfinu þannig að flutningur og dreifing á raforku til hitunar íbúðarhúsnæðis verði niðurgreidd að fullu.

Í öðru lagi er gerð tillaga að breyttri fjármögnun á niðurgreiðslum. Það hefur auðvitað verið vandamál hingað til. Við höfum eins og ég sagði áðan stundum náð verulegum fjármunum í þetta en þegar hefur slegið í bakseglin eða verr gengið hefur fjárhæðin lækkað. Hópurinn leggur til að sett verði jöfnunargjald á hverja framleidda kílóvattstund sem næmi þeim kostnaði sem er nauðsynlegur á hverjum tíma til að niðurgreiða flutning og dreifingu á raforku til upphitunar á íbúðarhúsnæði. Hér er um að ræða mjög lítils háttar gjaldtöku sem mundi hins vegar hafa mjög mikil áhrif á hag þeirra 30–35 þús. manna sem búa á þessum svæðum.

Í þriðja lagi leggur hópurinn fram nokkrar tillögur sem snúa að frekari jarðvarmaveituuppbyggingu og bættri orkunýtingu. Þar ber hæst að starfshópurinn leggur til að jöfnunargjald verði lagt á hitaveitur, svipað og á raforkuframleiðslu, sem geti ávallt tryggt viðgang og vöxt jarðvarmaveitna. Hann leggur enn fremur til að heimilt verði að lengja stofnstyrkjaframlagið sem nú er veitt til 12 ára ef þörf krefur. Það mundi gera að verkum að hagkvæmara yrði fyrir þá sem vilja fara í hitaveituframkvæmdir að gera slíkt vegna þess að þá yrðu þessir niðurgreiðslupeningar veittir eða stofnstyrkurinn veittur í allt að 12 ár til að lækka fjármagnskostnaðinn, stofnkostnaðinn, við þær framkvæmdir. Þetta getur verið gríðarlegt hagsmunamál, (Forseti hringir.) mér dettur til dæmis í hug norður í Skagafirði í þessum efnum.

Þess vegna vil ég spyrja hæstv. ráðherra hver sé afstaða hennar til þeirra tillagna sem koma fram í skýrslu starfshópsins og hvort þess megi vænta að lagt verði fram frumvarp á þessu þingi til að hrinda í framkvæmd þessum tillögum eða öðrum um lækkun húshitunarkostnaðar.