140. löggjafarþing — 83. fundur,  16. apr. 2012.

aðgerðir til lækkunar á húshitunarkostnaði.

631. mál
[16:41]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir að vekja athygli á þessu máli og ráðherra fyrir þau svör sem hér hafa komið fram.

Þetta er að sjálfsögðu eitt stærsta hagsmunamál þeirra sem búa á svokölluðum köldu svæðum og þeirra sem búa ekki við þann lúxus og þá miklu auðlind sem felst í heita vatninu. Þar af leiðandi er það eðlileg krafa að komið sé til móts við þá aðila með því að jafna húshitunarkostnaðinn svo hann verði sem næstur því sem hann er til dæmis á höfuðborgarsvæðið eða við meðaldýrar hitaveitur svo farin sé einhver viðmiðunarleið.

Ég hef svolitlar áhyggjur af því reyndar, ef ég hef skilið orð ráðherra rétt fyrr í morgun, að sama fyrirkomulag geti gilt um skattheimtu á orkuauðlindir og með sjávarútveginn. Það muni þá leiða til enn frekari hækkunar á orkuverði til íbúa úti á landi sem þurfa að kaupa raforku til húshitunar því einhvers staðar munu orkufyrirtækin ná þessum aukakostnaði inn.

Við framsóknarmenn nefndum það í tillögum okkar um sókn í atvinnumálum í haust að eitt af mikilvægum atriðum sem þyrfti að skoða væri mismunur á hitunarkostnaði og lögðum (Forseti hringir.) til að skoðað yrði að setja á fót jöfnunarsjóð raforku. Ég fagna því (Forseti hringir.) að kominn skuli fram vísir að einhverjum hugmyndum um slíka nálgun.