140. löggjafarþing — 83. fundur,  16. apr. 2012.

aðgerðir til lækkunar á húshitunarkostnaði.

631. mál
[16:43]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Einar K. Guðfinnsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hæstv. ráðherra svörin og þá umræðu sem hér hefur farið fram en ég verð að játa að ég varð fyrir miklum vonbrigðum með svör hæstv. ráðherra engu að síður. Ég hafði vænst þess að hæstv. ráðherra mundi láta koma fram skoðun sína og afstöðu sína til þeirra tillagna sem hér liggja fyrir. Meginefni þeirra er að flutningskostnaður og dreifingarkostnaður vegna rafmagnsins verði að fullu greiddur niður. Sú er megintillagan. Ég vil þess vegna spyrja hæstv. ráðherra um afstöðu hennar til þeirrar hugmyndar. Það kom fram í máli hæstv. ráðherra að nú væri þessi dreifikostnaður bara greiddur niður að 2/3 en að öðru leyti væri hann borinn uppi af þeim sem kaupa rafmagnið og veldur auðvitað þar með miklu hærra raforkuverði.

Þetta er grundvallarspurningin. Skýrslan var lögð fram í desember. Hún var kynnt í ríkisstjórn um miðjan janúar og við höfum ekki fengið enn þá nein svör um það hvert framhaldið verður að öðru leyti en því að málið er komið í nefnd. Þingnefndunum sem fengu málið til kynningar var ekki uppálagt að segja sérstaklega afstöðu sína til málsins. Ég sit í atvinnuveganefnd. Þar var þessu máli ákaflega vel tekið og menn höfðu mikinn áhuga á að því yrði hrint í framkvæmd. Ég verð þess vegna að lýsa miklum vonbrigðum mínum með að hæstv. ríkisstjórn skuli ekki hafa skilað af sér inn í þingið afurð sem fæli í sér að hrinda í framkvæmd að minnsta kosti þeim markmiðum sem tillögur starfshópsins fela í sér.

Ég vek athygli á því að ríkisstjórnin átti aðild að starfshópnum og hlýtur þess vegna að hafa tekið einhverja afstöðu til þeirra tillagna sem hér er um að ræða, a.m.k. markmiðin, og í öðru lagi er það eina sem við höfum síðan heyrt frá hæstv. ríkisstjórn áform sem hæstv. ráðherra kynnti í svari við fyrirspurn minni fyrr á þessum vetri um að hækka orkukostnaðinn í landinu um 50% á næstu 20 árum. Það er eina konkret svarið sem við höfum fengið. Þess vegna (Forseti hringir.) verð ég að lýsa mikilli hryggð yfir því að þessar tillögur séu ekki komnar lengra á veg en raun ber vitni og komið hefur fram í máli hæstv. ráðherra.