140. löggjafarþing — 83. fundur,  16. apr. 2012.

aðgerðir til lækkunar á húshitunarkostnaði.

631. mál
[16:45]
Horfa

fjármálaráðherra (Oddný G. Harðardóttir) (Sf):

Virðulegur forseti. Eins og ég sagði áðan er markmiðið með niðurgreiðslu húshitunarkostnaðar að ná fram jöfnuði í landinu vegna hitunar húsnæðis þar sem þeim forréttindum að hafa aðgang að tiltölulega ódýrum jarðhita til húshitunar er ekki jafnt dreift og það er skynsamlegt að jafna þann kostnað. Þetta sagði ég í upphafi máls míns og jafnframt að þegar lög um niðurgreiðslu voru sett árið 2002 nægðu heimildirnar til að niðurgreiða flutningana að fullu. Undanfarin ár hefur það hlutfall farið lækkandi og var 67% árið 2011. Helstu ástæðurnar fyrir því eru að fjárheimildirnar hafa ekki haldið í við hækkun á vísitölu neysluverðs né tekið mið af hækkunum sem orðið hafa á gjaldskrám dreififyrirtækjanna.

Heildarkostnaður við að niðurgreiða allan flutning og dreifingu raforku til rafhitunar mundi nema um 1.700 millj. kr. á ári en til samanburðar voru heimildir fjárlaga 2011 1.143 millj. kr. Ef við ætlum að jafna dreifi- og flutningskostnað að fullu mundi það kosta ríkissjóð um 550 millj. kr. aukalega og það þarf að finna út hvernig við náum þeim sparnaði annars staðar í kerfinu til að setja 550 millj. kr. í flutningskostnaðinn.

Eins og kom fram í máli mínu áðan er verið að yfirfara þessar tillögur í iðnaðarráðuneytinu en auk þess hefur verið óskað eftir því að Orkustofnun vinni að úttekt á fyrirkomulagi niðurgreiðslna. Stefnt er að því að sú greining og úttekt liggi fyrir næsta haust enda er talið að þetta sé flókið kerfi og ekki aðeins þurfi að jafna greiðslurnar heldur einnig að einfalda kerfið.

Varðandi hækkun á orkukostnaði til almennings þá hefur sú sem hér stendur einmitt sagt að til að koma í veg fyrir að slíkt verði (Forseti hringir.) þurfi að ganga úr skugga um að orkufyrirtæki okkar og auðlindin okkar sé í eigu almennings en ekki einkavædd.