140. löggjafarþing — 83. fundur,  16. apr. 2012.

prófessorsstaða tengd nafni Jóns Sigurðssonar.

630. mál
[16:51]
Horfa

forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Hæstv. forseti. Í umræðu um þingsályktunartillögu um prófessorsstöðu tengda nafni Jóns Sigurðssonar sl. sumar hér á Alþingi kom fram að því væri fagnað að staðsetning prófessorsstöðunnar væri tengd Vestfjörðum og er því eðlilegt að vísað sé til þeirrar umræðu þegar fjallað er um þetta mál í sölum þingsins nú.

Í greinargerð með þingsályktunartillögunni kemur fram að æskilegt sé að prófessorinn hafi búsetu nálægt starfsstöð sinni á heimaslóðum Jóns Sigurðssonar. Forsætisráðuneytið hefur í ljósi þessa orðalags talið mikilvægt að prófessorinn og samstarfsfólk hans starfi á Vestfjörðum, ekki einungis í orði kveðnu heldur einnig í raun. Málið heyrir hins vegar stjórnskipulega undir mennta- og menningarmálaráðuneytið og Háskóla Íslands og hefur forsætisráðuneytið því enga stjórnskipulega aðkomu að því. Framkvæmd þingsályktunartillögunnar hefur í samræmi við það alfarið verið í höndum mennta- og menningarmálaráðuneytisins og Háskóla Íslands og auglýsingin um starfið og orðalag hennar var því ekki borið undir forsætisráðuneytið. Í auglýsingu prófessorsembættis sagði m.a.:

„Prófessorsstarfinu fylgir rannsókna- og kennsluskylda við Háskóla Íslands auk þess sem starfsskyldur verða við Rannsóknasetur Háskóla Íslands á Vestfjörðum og í samstarfi við Háskólasetur Vestfjarða. Gert er ráð fyrir starfsstöð á tveimur stöðum, þ.e. að Hrafnseyri við Arnarfjörð og við Háskóla Íslands. Eitt verkefna prófessorsins verður að halda árlegar ráðstefnur og námskeið í sumarháskóla á Hrafnseyri með innlendum og erlendum kennurum og fræðimönnum.“

Þótt ekki segi í auglýsingunni að prófessorinn skuli hafa fasta búsetu á Ísafirði eða nágrenni er ekki hægt að lesa út úr auglýsingunni að staðsetning hennar sé tilgreind í Reykjavík eins og haldið hefur verið fram. Ekkert í auglýsingunni kemur í veg fyrir að prófessorinn starfi og dveljist á Vestfjörðum, enda fór prófessorinn ásamt fleirum til Vestfjarða fyrir nokkrum dögum til að funda með heimamönnum og leggja drög að því að útvega og leigja húsnæði fyrir prófessorinn og samstarfsmenn hans fyrir vestan.

Forsætisráðuneytið hefur bæði verið í sambandi við mennta- og menningarmálaráðuneytið og Háskóla Íslands og fylgst með þróun mála og í svari rektors Háskóla Íslands um fyrirspurn forsætisráðuneytisins um stöðu þessara mála í aðdraganda skipunar í embættið sagði orðrétt, með leyfi forseta:

„Prófessornum er þannig ætlað að standa fyrir vísinda- og fræðastarfi á Vestfjörðum við Rannsóknasetur Háskóla Íslands og í samstarfi við Háskólasetur Vestfjarða og aðra heimamenn og stofnanir. Við það mun hann njóta stuðnings háskólans og það bakland sem þar er að finna og gera verður ráð fyrir því að prófessorinn hafi auk starfsstöðvar fast aðsetur á Vestfjörðum.“

Jafnframt sagði í svari rektors, með leyfi forseta:

„Reynsla Háskóla Íslands af uppbyggingu rannsóknasetra skólans um land allt hefur verið að bestur árangur náist í rannsóknum og þróun með því að ráða öfluga vísindamenn sem tengja og byggja brýr á milli þekkingar og mannauðs skólans á landsvísu annars vegar og stofnana og heimamanna á starfssvæði rannsóknasetranna hins vegar. Öflugir vísindamenn eru mjög líklegir til að afla styrkja úr innlendum og erlendum samkeppnissjóðum og nýta að jafnaði styrkina til greiðslu launa vegna rannsóknarvinnu doktors- og meistaranema sinna á viðkomandi stað.

Það hefur því ítrekað komið fram að það er einlægur vilji Háskóla Íslands að stofnun prófessorsstöðu Jóns Sigurðssonar megi verða til að efla enn frekari rannsóknir og kennslu á Vestfjörðum í samvinnu við Rannsóknasetur Háskóla Íslands í Bolungarvík og Háskólasetur Vestfjarða og að Háskóla Íslands er mikið í mun að með aukinni starfsemi skólans á svæðinu opnist fleiri samstarfsmöguleikar og tækifæri til uppbyggingar háskólastarfsemi og rannsókna á Vestfjörðum svo sem á sviði orkumála og sjávarútvegsmála.“

Hinn nýskipaði prófessor ásamt fleirum fundaði ítrekað með hagsmunaaðilum og heimamönnum og ýmsir samstarfsfletir komu upp á fundinum á Vestfjörðum í síðustu viku. Jafnframt hefur verið fundað með forstjóra Orkubús Vestfjarða vegna samstarfs í orkunámi við Háskóla Íslands og er ætlunin að fara með Háskóla unga fólksins sérstaklega til Ísafjarðar í vor þar sem rektor Háskóla Íslands hyggst m.a. kenna um nytjaplöntur jarðar og sjávar.

Það er því ljóst af þessu, virðulegi forseti, að menn ætla sér mikið hvað varðar þetta prófessorsembætti. Eins og ég sagði var farið vestur fyrir nokkrum dögum til að útvega og leigja húsnæði fyrir hinn nýskipaða prófessor og starfsfólk hans. Ég mun áfram fylgjast með framgangi þessa máls og því hvernig það þróast því að mikilvægt er að vilji Alþingis verði virtur í þessu efni og að gott samstarf verði haft við Vestfirðinga í þeirri uppbyggingu sem fram undan er.