140. löggjafarþing — 83. fundur,  16. apr. 2012.

hækkun kostnaðarhlutdeildar lífeyrisþega, öryrkja og barna vegna sjúkraþjálfunar.

628. mál
[17:19]
Horfa

velferðarráðherra (Guðbjartur Hannesson) (Sf):

Hæstv. forseti. Hv. þm. Guðlaugur Þór Þórðarson hefur beint til mín munnlegri fyrirspurn um hækkun á kostnaðarhlutdeild til lífeyrisþega og fullyrðir raunar í byrjun að kostnaðarhlutdeildin hafi verið umfram verðlagshækkanir og sé mest gagnvart börnum og ellilífeyrisþegum.

Ef um er að ræða hækkun þá sem varð um síðustu áramót var hún 131 kr. og það var föst krónutöluhækkun. Það er rétt að ef maður tekur hlutfallshækkunina er hún hærri þar hjá þeim sem borguðu minna fyrir en hjá öðrum, en krónutalan var upp á 131 kr. Ástæðan fyrir hækkun kostnaðarhlutdeildar sjúkratryggðra er sú að í gildandi fjárlögum er gerð krafa um 50 millj. kr. lækkun á útgjöldum vegna sjúkraþjálfunar. Til að ná þeirri lækkun var ákveðið að hækka hlutdeild sjúkratryggðra, þ.e. almennra notenda og lífeyrisþega, þar með talið öryrkja og barna, fyrir hverja komu til sjúkraþjálfara um 131 kr. eða sem jafngildir þremur prósentustigum fyrir 30 meðferðarskipti. Þannig var það reiknað út. Þannig greiða lífeyrisþegar með tekjutryggingu, börn undir 18 ára og einstaklingar með umönnunarkort nú 23% af umsömdu heildargjaldi fyrir komu til sjúkraþjálfara í stað 20% áður. Lífeyrisþegar án tekjutryggingar greiða núna 33% í stað 30% áður, almennur notandi borgar 73% í stað 70% áður og heildarkomugjaldið er 4.359 kr. Svo er prósentan sem ég nefndi mismunandi eftir því hver hópurinn er.

Engar breytingar voru gerðar á gjaldi fyrir komu til sjúkraþjálfara eftir að 30 skiptum er náð, þ.e. eftir að komið er að afsláttarmörkum á komugjaldinu. Eftir að afsláttarmarki er náð greiða lífeyrisþegar með óskerta tekjutryggingu, börn undir 18 ára og einstaklingar með umönnunarkort, ekkert komugjald. Lífeyrisþegar með skerta tekjutryggingu greiða 10%, lífeyrisþegar án tekjutryggingar 20% og almennur notandi 40%. Það er sem sagt óbreytt fyrir þá sem nota þjónustuna hvað mest.

Benda má á að lífeyrisþegar eiga rétt á uppbót á lífeyri vegna sjúkra- og lyfjakostnaðar að uppfylltum tilteknum skilyrðum sem léttir vissulega undir útgjöldum vegna heilbrigðisþjónustu, en þar er átt við reglugerð nr. 1052/2009, um heimilisuppbætur og uppbætur á lífeyri.

Varðandi seinni spurninguna, hvers vegna hlutfallshækkunin er hærri gagnvart sumum samkvæmt þessum breytingum er eins og áður sagði miðað við breytingarnar á kostnaðarhlutdeild sjúkratryggðra 1. janúar síðastliðinn að því að bæta hagræðingarkröfu fjárlaga. Ákvörðun var tekin um sömu krónutöluhækkun þannig að krónutalan vegur þyngra hjá þeim sem borga minna og hjá öllum hópum hvort heldur um er að ræða lífeyrisþega, börn, einstaklinga með umönnunarkort eða almenna notendur.

Það liggur í hlutarins eðli að sama krónutöluhækkun á misháar fjárhæðir hefur í för með sér hlutfallslega meiri hækkun á lægri fjárhæðir en hærri. Eins og þegar hefur komið fram greiddi hinn almenni borgari 1. janúar síðastliðinn 73% af heildarkomugjaldi til sjúkraþjálfara. Það jafngildir 3.182 kr. fyrir hverja komu. Á sama tíma greiða lífeyrisþegi með tekjutryggingu og barn undir 18 ára aldri rúmar 1.052 kr. fyrir komuna eða sem nemur 23% af heildarkomugjaldinu, en eins og áður sagði var heildarkomugjaldið 4.359 kr. hjá báðum aðilum.

Þrátt fyrir hlutfallslega meiri hækkun gjalda hjá lífeyrisþegum og börnum var krónutöluhækkunin hin sama, svo það sé ítrekað, og hún var sem betur fer ekki hærri en þetta. Hlutdeild almennra notenda í heildarkostnaði við meðferð er engu að síður kringum 67% að meðaltali á sama tíma og hlutdeild lífeyrisþegabarna er að jafnaði 15–20% í heildarkostnaði við hverja meðferð. Þá fer almennur notandi að jafnaði 11 sinnum til sjúkraþjálfara á ári og greiddi fyrir það tæplega 31 þús. kr. árið 2011. Til samanburðar greiddu börn á aldursbilinu 12–17 ára að jafnaði rúmlega 8 þús. kr. fyrir sama skiptafjölda og lífeyrisþegar með tekjutryggingu sem fara að jafnaði 22 sinnum til sjúkraþjálfara greiddu fyrir það rúmlega 14 þús. kr. 2011.

Í upphafi máls síns benti hv. þm. Guðlaugur Þór Þórðarson á að menn hefðu rætt um endurskoðun á greiðslukerfi í heilbrigðiskerfinu í heild. Það er full ástæða til að ítreka að sú vinna þarf að eiga sér stað. Þeirri vinnu var skipt upp í lyfjakostnað annars vegar og hins vegar greiðslu fyrir heilbrigðisþjónustu almennt. Það er mikilvægt að fara í þá vinnu. En kostnaður af endurhæfingu hefur vaxið eftir hrun og er ekki hluti af því sem skorið hefur verið verulega niður en vegna aukningarinnar þurfti engu að síður að mæta því í gjaldskránni að hluta svo vöxturinn yrði ekki meiri en (Forseti hringir.) fjárlög gerðu ráð fyrir.