140. löggjafarþing — 83. fundur,  16. apr. 2012.

hækkun kostnaðarhlutdeildar lífeyrisþega, öryrkja og barna vegna sjúkraþjálfunar.

628. mál
[17:25]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svarið og hv. þm. Pétri Blöndal fyrir innlegg hans. Ég er sammála öllu því sem kom fram hjá hv. þm. Pétri Blöndal.

Fram kemur í svari hæstv. ráðherra að hér er um flata krónutöluhækkun að ræða, alla vega sums staðar. Ég er hér með töfluna frá Sjúkratryggingum þar eru ýmsar aðrar tölur, þar er hækkun upp á 131 kr., svo sé ég 60 kr., 68 kr. og stundum er engin hækkun, en hlutfallslega er þetta meiri hækkun fyrir þá sem mest þurfa á þjónustunni að halda og hafa minnstar tekjurnar. Það vakti athygli mína.

Ef ég tók rétt eftir sagði hæstv. ráðherra að lífeyrisþegar með óskerta tekjutengingu væru að jafnaði með 22 heimsóknir til sjúkraþjálfara, það er akkúrat að jafnaði. Það er alveg 100% víst að einhverjir fara oftar. Það er vandinn í þessu kerfi að þar er hver einstaklingur með sínar þarfir. Það vekur athygli að hækkunin er hlutfallslega hærra hjá þeim mest þurfa á þjónustu að halda og hafa minnstar tekjurnar. Þetta er enn eitt dæmið um að það er mikilvægt að líta heildstætt á málið, það er afskaplega mikilvægt. Það eru svo mismunandi þarfir og jafnvel þótt við niðurgreiðum lyf stendur eftir allra handa önnur þjónusta. Þetta er gott dæmi um góða heilbrigðisþjónustu sem er nauðsynleg og sem verður þá ekki undir ef við tökum lyfin út. Það er alveg sama hvað við tökum út, það er alltaf eitthvað sem stendur út af hjá viðkomandi sjúklingi þannig að ég hvet hæstv. ráðherra til að endurskoða hvernig farið verður í þá vinnu. (Forseti hringir.) Við sem hér erum þurfum sem betur fer lítið á þessari þjónustu að halda alla jafna en það bíða aðrir eftir (Forseti hringir.) breytingum og einföldun á þessu kerfi.