140. löggjafarþing — 84. fundur,  17. apr. 2012.

störf þingsins.

[13:33]
Horfa

Þór Saari (Hr):

Frú forseti. Mig langar að tala örstutt um Alþingi og störf þess undanfarin þrjú ár. Núna er tæpt ár til kosninga og kannski rétt að velta því fyrir sér hvað verið hefur að gerast undanfarin þrjú ár og hvernig sýn mín sem þingmanns er á það.

Traust almennings á Alþingi er í algeru lágmarki í dag. Alþingi hefur ekki náð að vinna aftur það traust sem hvarf gersamlega í hruninu. Ég tel að Alþingi og þingmenn allir þurfi að velta fyrir sér hvers vegna það er.

Enn er ekki búið að koma á trúverðugu fjármálakerfi í landinu eftir hrun þess fyrir rúmum þremur árum. Eignarhald á tveimur af þremur stærstu bönkum landsins er ekki almennilega þekkt og í dag liggur fyrir að mæla á fyrir frumvarpi um að selja afganginn af eignarhlut ríkisins í þeim bönkum. Víðtækar lýðræðisumbætur, svo sem persónukjör, þjóðaratvæðagreiðslur og lýðræðisvæðing sveitarfélaga, hafa ekki fengist afgreiddar á þessum þremur árum. Við horfum upp á að framlagning frumvarpa um fiskveiðistjórnun er alger viðsnúningur frá kosningaloforðum beggja stjórnarflokkanna. Flokkarnir hafa í raun ekkert umboð til að leggja fram þessi frumvörp því að þau eru ekki í neinu samræmi við það sem þessir flokkar töluðu um fyrir kosningar.

Við slíkar aðstæður er sjálfgefið að þjóðin fái að segja álit sitt á þessum málum með valkostum í ...

(Forseti (ÁRJ): Forseti vill biðjast velvirðingar á því að klukkan í borðinu virkar ekki en hún er í lagi í borði hjá forseta. Nú eru komnar tvær mínútur þannig að forseti biður þingmanninn um að ljúka ræðu sinni.)

Þá lýk ég ræðu minni á því að ég tel að þjóðin eigi að sjálfsögðu að fá að segja álit sitt á þeim frumvörpum vegna þess að þau eru ekki lögð fram í neinu umboði kjósenda. Ég hvet þingmenn jafnframt (Forseti hringir.) til að velta því fyrir sér hvað stjórnarflokkarnir hafa verið að gera hér í þrjú ár ef málin eru svona.