140. löggjafarþing — 84. fundur,  17. apr. 2012.

störf þingsins.

[14:07]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að segja að það væri nú hollt fyrir marga hv. þingmenn að kynna sér skýrslu sem gerð var af Háskólanum á Akureyri um hvernig skatttekjum af Vestfjörðum er ráðstafað. Mér finnst eins og sumir hv. þingmenn haldi jafnvel að peningarnir og gjaldeyririnn verði til í Seðlabankanum. Hann verður nefnilega til úti á landsbyggðinni að langstærstum hluta þar sem verðmætin verða til. Síðan geta menn gert kröfu um að fá meira af auðlindagjaldinu og ég ítreka að það er mjög skynsamlegt og gott að undirstöðuatvinnuvegur þjóðarinnar, sjávarútvegurinn, greiði sanngjarnt veiðileyfagjald. Ég tek undir það sem hv. þm. Róbert Marshall sagði hér áðan, við skulum bara taka efnislega umræðu um málin í þinginu, í nefndinni, og hætta þessum hrópum og görgum eins og við höfum verið að gera núna.

Þá verður líka hv. þingmaður að gera sömu kröfur til sín og hann gerir til annarra því að hann sagði héðan úr þessum ræðustól að það væri Sjálfstæðisflokkurinn, sveitarstjórnarfólk Sjálfstæðisflokksins — og það veit hv. þingmaður jafn vel og ég að er ekki rétt. Tökum efnislega og sanngjarna umræðu um málið og ræðum það af einhverri yfirvegun og einhverju viti. Það er löngu komið nóg af framkomu sumra hv. stjórnmálamanna gagnvart þessari undirstöðuatvinnugrein þjóðarinnar. Það er komið nóg af því úr öllum áttum. Við skulum taka málið og ræða það með þeim hætti.

Þetta er sömu ræðurnar sem sumir hv. þingmenn flytja hér og ásaka Sjálfstæðisflokkinn — og segja að það sé af því að þeir fluttu það nefnilega líka fyrir tæpu ári. Hvernig var með það frumvarp? Þá sögðu sömu hv. þingmenn það sem verið er að segja hér núna.

Ég horfi á hæstv. utanríkisráðherra sem sagði: Ja, þetta frumvarp, þetta var bara bílslys, þetta hefði haft skelfilegar afleiðingar eins og bílslys hafa, því miður oft. Þess vegna verða menn að gera sömu kröfur til sín og þeir gera til annarra. Ég kvíði því ekki að taka hér efnislega og málefnalega umræðu um málefni sjávarútvegsins frekar en um einhverjar aðrar (Forseti hringir.) atvinnugreinar.