140. löggjafarþing — 84. fundur,  17. apr. 2012.

framlagning stjórnarfrumvarpa.

[14:16]
Horfa

Atli Gíslason (U):

Frú forseti. Frá því að ég kom hér fyrst inn á þing, sem varaþingmaður vorið 2004 og nokkur skipti síðar og var svo kosinn á þing árið 2007, má segja að ástandið hafi heldur versnað en hitt með þennan fjölda þingmála og óvönduð vinnubrögð. Það sem hefur hins vegar gerst í millitíðinni, frá árinu 2007 og til ársins 2012, er að út kom skýrsla rannsóknarnefndar Alþingis sem bendir á þau óvönduðu vinnubrögð og Alþingi samþykkti í september 2010 að taka upp breytt vinnubrögð. Þau fara heldur versnandi og það þykir mér súrt í broti að hv. þm. Árni Þór Sigurðsson skuli koma hér upp og nota röksemd Megasar: Svo skal böl bæta að benda á annað verra.

Það er ekki boðlegt í þessum ræðustól.