140. löggjafarþing — 84. fundur,  17. apr. 2012.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

699. mál
[14:32]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Þessi þingsályktunartillaga kemur í sjálfu sér ekki á óvart eftir breytingar á lögum um Stjórnarráðið sem voru samþykktar sl. haust. Það kemur þó á óvart að ekki skuli vera nákvæmari greinargerð eða lýsing á þeim áformum sem í tillögunni sjálfri felast. Í stuttri framsöguræðu forsætisráðherra bætti hún heilmiklu við. En það er allt í lagi, það verður kallað eftir því á vettvangi nefndarinnar.

Það sem ég vil spyrja hæstv. forsætisráðherra um á þessu stigi er það sem hún vék að í máli sínu um að það væri vissulega ekki tilgangur breytinga af þessu tagi að ná fram sparnaði til skamms tíma. Ég hygg að sá kostnaður sem felst í þeim tilfærslum, róti, breytingum á húsnæði og öðru slíku sem þegar hefur fallið til vegna breytinga á ráðuneytum sé umtalsverður og töluvert umfram áætlanir. Hafa slíkar áætlanir verið gerðar í sambandi við þessar breytingar? Liggur fyrir (Forseti hringir.) hver talan er varðandi þær breytingar sem þegar hafa átt sér stað?