140. löggjafarþing — 84. fundur,  17. apr. 2012.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

699. mál
[14:39]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það þarf ekki mikla þingreynslu til að átta sig á því hvað hæstv. ráðherra var að gera með þessu svari. Hæstv. ráðherra var að reyna að skauta fram hjá þeirri spurningu sem ég lagði fyrir ráðherrann, sem var þessi: Er á bak við þetta mál stuðningur þingmeirihlutans á Alþingi, þ.e. ríkisstjórnarmeirihlutans?

Hæstv. ráðherra vísaði til þess að hún vonaðist til þess að þetta mál hefði meirihlutastuðning og sá stuðningur næði þá út fyrir raðir ríkisstjórnarinnar og stjórnarliða. Ég var einfaldlega að spyrja hvort þetta mál væri eiginleg stjórnartillaga í þeim skilningi að um væri að ræða afdráttarlausan stuðning stjórnarliða. Hæstv. ráðherra sagði að hún gerði ráð fyrir því að svo væri. Hún sagði að það hefði verið samþykkt einróma í ríkisstjórn. Það eru að vísu dálítil tíðindi, það er alls ekki þannig með öll þau mál sem hæstv. ríkisstjórn hefur borið fram. Ég var hins vegar að kalla eftir því sem mér finnst skipta miklu máli: Er um að ræða órofa stuðning? Styður t.d. fyrrverandi hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra þetta mál? Liggur það fyrir að þetta mál njóti meirihlutastuðnings á Alþingi eða er hér um að ræða einhvers konar óskhyggjumál frá hæstv. ríkisstjórnar?