140. löggjafarþing — 84. fundur,  17. apr. 2012.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

699. mál
[14:45]
Horfa

forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Eins og við vitum eru nýsköpunarmöguleikar margvíslegir og dreifðir á milli ýmissa ráðuneyta, iðnaðarráðuneytis, sjávarútvegsráðuneytis, menntamálaráðuneytis og fleiri ráðuneyta, en þarna erum við að tala um sjóði til nýsköpunar sem tengjast atvinnulífinu. Þeir eru settir á einn stað sem tryggir betur að mínu viti jafnræði milli atvinnugreina að því er varðar úthlutun á fjármagni til ýmissar nýsköpunar í atvinnulífinu. Það held ég að séu kostir.

Í þeirri greiningu sem fór fram, sem er auðvitað sjálfsagt að þingmenn fái, var farið í ýmis áhrif að því er varðar framlegðina af þessum ráðuneytum, t.d. í atvinnuvegaráðuneytinu, hvað það þýddi, og í langflestum tilvikum var það matið að ýmsir kostir væru við samlegðaráhrif (Forseti hringir.) og var það að mig minnir í 16 tilvikum af 18 sem menn töldu mikla kosti við (Forseti hringir.) samlegðaráhrif, m.a. varðandi nýsköpunarþáttinn sem hv. þingmaður nefnir.