140. löggjafarþing — 84. fundur,  17. apr. 2012.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

699. mál
[14:51]
Horfa

forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Eins og ég sagði í máli mínu áðan þá hefur þetta mál farið nokkrum sinnum í gegnum þingið undanfarin þrjú ár og verið lengi til meðferðar í nefndum þingsins og til umræðu í þingsölum þannig að skoðanir stjórnarandstöðunnar hafa fyllilega komið í ljós; þær komu líka í ljós í þeim nefndarálitum sem var skilað með þeim breytingum sem voru gerðar á innanríkisráðuneytinu og velferðarráðuneytinu. Skoðanir stjórnarandstöðunnar hafa svo sem legið fyrir.

Við töldum að aðalmálið væri að hafa samráð og samvinnu við ýmis hagsmunasamtök. Ég fór yfir það í máli mínu að við höfum haldið fjölda funda, mig minnir að þeir hafi verið 15 með einstaka atvinnugreinum og starfsgreinasamböndum í þessu sambandi og líka stórir sameiginlegir fundir í þessu efni, þannig að ég held að í fáum málum hafi verið haft eins mikið samráð og samvinna og í þessu máli, enda hefur það (Forseti hringir.) verið töluvert lengi til umfjöllunar bæði í ráðuneytinu og hér á Alþingi.