140. löggjafarþing — 84. fundur,  17. apr. 2012.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

699. mál
[15:03]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. forsætisráðherra fyrir ræðu sína er hún fylgdi þessu máli úr hlaði. Þessi þingsályktunartillaga er að nokkru leyti endurtekið efni. Þegar fjallað var um breytingar á Stjórnarráðinu í haust að mig minnir kom fram í ræðum þingmanna, í það minnsta, að vilji forsætisráðherra væri augljós, þ.e. að ná í gegn ákveðinni sameiningu á ráðuneytum og fara væntanlega í tilflutning á verkefnum þar á milli eins og var augljóst í því máli sem kom þá inn í þingið.

Það sem stendur kannski upp úr varðandi allt ferli málsins frá upphafi er að það er í raun einhvers konar yfirlýsing um uppgjöf varðandi samvinnu og samstarf um að breyta lögum um Stjórnarráðið. Ekki hefur á neinum tímapunkti málsins verið leitað eftir því við stjórnarandstöðuna að koma með formlegum hætti að málinu. Þá á ég við í upphafi þegar málið kom fyrst inn í þingið. Það fór síðan til þingnefnda, eins galið og það var í upphafi, og þar hafa að sjálfsögðu komið fram ýmiss sjónarmið. En það er mikilvægt að halda því til haga að aldrei var leitað til stjórnarandstöðunnar um einhvers konar samráð um hvernig ætti að breyta lögum um Stjórnarráðið.

Þar af leiðandi tel ég nokkuð einsýnt, og miðað við þau sjónarmið sem hafa komið fram í ræðum margra stjórnarandstöðuþingmanna um þetta mál frá upphafi, að verulegar líkur hljóta að vera á því að eftir næstu kosningar þegar ný ríkisstjórn tekur við völdum verði þetta eitt af þeim málum sem verði snarlega breytt. Þar af leiðandi verð ég að segja að mér finnst mikið í lagt og farið í mikinn kostnað, sem skattgreiðendur munu að sjálfsögðu greiða, við þær breytingar á Stjórnarráðinu sem hér er talað um, í ljósi þess að engin sátt er um þetta mál. Það er ámælisvert að mínu viti að fara fram með mál með þessum hætti og augljóst að þarna er ekki verið að hugsa um krónur og aura.

Ég er ósammála því sem kemur fram í þessari þingsályktunartillögu að verið sé að einfalda málin með því að sameina ráðuneytin. Það er reynsla margra sem hafa glímt við hin nýsameinuðu ráðuneyti og hafa rætt við okkur þingmenn að það sé allt annað en einfalt að eiga í samskiptum eftir að sú sameining fór fram. Ráðuneytin hafa stækkað og hlutverk eru óljós eða ekki nógu skýr innan húss.

Ég undrast líka að áherslan á stjórnarráðsbreytingar skuli vera svona mikil. Ég hefði haldið að það væri okkar hagur, allra þingmanna, að einbeita okkur að því að styrkja Alþingi, styrkja lagalega umfjöllun Alþingis, þ.e. þau tæki og tól sem Alþingi hefur til að vinna að frumvörpum, vinna að efnahagsmálum og mati á efnahagslegri stöðu landsins og sinna upplýsingaöflun fyrir þingið. Ég held að mjög mikilvægt sé að horft verði á þetta.

Síðan er ekki hægt að fjalla nánar um þetta mál án þess að draga fram þá staðreynd sem kemur fram í ályktun Evrópuþingsins frá 14. mars síðastliðnum þar sem sérstaklega er tekið fram hversu vel gengur að sameina ráðuneytin á Íslandi og því fagnað sérstaklega. Það undirstrikar að sjálfsögðu það sem mörg okkar hafa haldið fram að einn af stóru þáttunum í þessari sameiningu er að liðka til fyrir aðlögun Íslands að Evrópusambandinu. Það er ekki hægt að sjá annað af þeim bréfum sem þaðan koma en að þetta sé mikilvægur þáttur í því að íslensk stjórnsýsla verði tilbúin þegar stóri dómur fellur í því máli. Það er alveg ljóst að verið er að þjónkast við Evrópusambandið og þá vegferð alla með þessum breytingum eins og fram kemur í 24. lið í þessu bréfi sem samþykkt var 14. mars.

Í greinargerð með þingsályktunartillögunni kemur fram að sameina eigi ráðuneyti í atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti, umhverfis- og auðlindaráðuneyti og fjármála- og efnahagsráðuneyti. Ég kom aðeins inn á það í andsvari áðan að ég hef miklar efasemdir um fjármála- og efnahagsráðuneyti. Ég held að mikilvægt sé að efnahags- og viðskiptaráðuneytið sé eflt frekar en hitt í ljósi þess að þau mál sem undir það heyra, bankamálin og efnahagsmálin, munu áfram verða eitt af stóru verkefnunum á næstu árum vegna þess hvernig til hefur tekist hér. Fjármálaráðuneytið á væntanlega fullt í fangi með að sinna þeim verkum sem þar eru. Ég fæ ekki annað séð en að það kalli á fjölgun starfsmanna í ráðuneytinu að færa þessi verkefni yfir. Ég kaupi bara ekki þau rök, herra forseti, ef þeim er haldið á lofti, að yfirfærsla verkefnanna hafi ekki þau áhrif.

Hér kemur fram að markmið breytinganna sé að gera Stjórnarráðið öflugra og skilvirkara og skerpa betur á og skýra verkaskiptingu á milli ráðuneyta.. Ég fæ ekki séð að verið sé að gera það með því til dæmis að sameina þau ráðuneyti sem ég nefndi áðan, að blanda saman fjármálaráðuneytinu sem sýslar með fjárlög ríkisins og því ráðuneyti sem fjallar um efnahagsmál landsins. Það má kannski segja að nær hefði verið að forsætisráðuneytið væri meira með puttana í efnahagsmálum, en núverandi hæstv. forsætisráðherra gerði þá breytingu að koma efnahagsmálunum út úr sínu ráðuneyti. Þar af leiðandi held ég að það eina vitræna í málinu væri að efla það ráðuneyti og ég hefði stutt slíka tillögu.

Síðan er það atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið. Ég held að þar sé verið að gera mikil mistök með því að sameina í eitt ráðuneyti sjávarútvegs-, landbúnaðar- og iðnaðarmálin. Sjávarútvegurinn er okkar undirstöðuatvinnugrein. Það þarf sérstaklega að huga að umgjörð hennar eins og við höfum verið að ræða hér. Mér finnst mikilvægast akkúrat í dag að einhverjir ráðamenn í þjóðfélaginu, ráðherrar sem fara með völdin í landinu, tali upp þessa atvinnugrein. Því miður talar enginn af ráðherrum ríkisstjórnarinnar upp sjávarútveginn. Þvert á móti er talað með þeim hætti að hann sé óþrjótandi uppspretta eða að það séu ekkert nema bófar í þeirri grein, sem er algjörlega óþolandi.

Síðan er hér fjallað um umhverfis- og auðlindaráðuneyti. Um það hef ég líka haft miklar efasemdir. Mér finnst ekki nógu skýrt hvar munurinn liggur á milli umhverfis- og auðlindaráðuneytis og atvinnuvegaráðuneytis þegar kemur til dæmis að nýtingu á auðlindum. Hér er talað um að setja markmið um sjálfbæra nýtingu, það sé á öðrum staðnum, svo tali menn saman um það hvernig þetta fari fram. Mér finnst þetta ekki nógu skýrt því að ég held að þarna muni koma upp flækjustig sem geri að verkum að hlutirnir verði óskýrari en þeir eru í dag. Ég held að betra sé að hafa ráðuneytin með sama formi og í dag en að fara þessa leið.

Auðvitað felst pólitísk stefnuyfirlýsing í því að auka áhrif umhverfis- og auðlindaráðuneytis varðandi nýtingu, hvort sem það er nýting á fiski eða orku eða einhverju öðru. Það felst að sjálfsögðu pólitísk yfirlýsing í því. Það þarf hins vegar ekki að gera það með því að sameina ráðuneyti eða búa til nýtt ráðuneyti. Það er að sjálfsögðu hægt að gera það með öðrum hætti.

Hér kemur fram líka í greinargerð, með leyfi forseta:

„Þá býður sameining ráðuneyta sem fara með atvinnumál upp á aukna möguleika til sérhæfingar og aukið bolmagn til nýsköpunar og þróunarstarfs þvert á atvinnugreinar.“

Ég verð því miður, herra forseti, að viðurkenna að ég skil ekki hvernig sameining getur aukið sérhæfingu. Ég held að það væri frekar til bóta, ef menn vilja auka sérhæfingu, að sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneyti yrði áfram sérstakt ráðuneyti þar sem sérhæfing í þeim atvinnugreinum færi fram. Ég verð að viðurkenna að ég hafði á sínum tíma, ef ég fer svolítið langt aftur, meira að segja efasemdir um það þegar sjávarútvegsráðuneytið og landbúnaðarráðuneytið voru sameinuð, en það er orðið langt um liðið síðan það var gert og kannski illt að breyta því til baka. En þarna held ég að sé verið að gera mistök. Ég held líka að þegar við ræðum um iðnaðinn og sérhæfingu varðandi hann eigi sú vinna að fara áfram fram í iðnaðarráðuneytinu.

Herra forseti. Ég er því miður rétt kominn niður hálfa fyrstu blaðsíðuna og óska eftir að verða settur aftur á mælendaskrá.