140. löggjafarþing — 84. fundur,  17. apr. 2012.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

699. mál
[15:13]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna og get tekið undir margt sem kom fram í máli hans. Hv. þingmaður byrjaði á að fara yfir það að æskilegra hefði verið, og ég er algjörlega sammála honum um það, að reyna að vinna þetta þverpólitískt svo að einhver sátt næðist um þessar breytingar á ráðuneytunum og að ekki væri verið að hringla með þetta með tilheyrandi kostnaði upp á tugi og hundruð milljóna, eins og raunin var síðast þegar ráðuneyti voru sameinuð, líka bara upp á framtíðina að gera, menn væru ekki alltaf í þessum hringlandahætti.

Hv. þingmaður kom sérstaklega inn á það í ræðu sinni þar sem hann nefndi að þetta væri eiginlega svona hluti af aðildaraðlöguninni við Evrópusambandið og benti réttilega á þá ályktun sem kom þaðan þegar þær hugmyndir sem við erum að ræða hér um komu fram.

Mig langar að spyrja hv. þingmann hver skoðun hans sé eiginlega á stöðu vinstri grænna gagnvart Evrópusambandinu. Þeir þjónkast undir Evrópusambandið, alveg sama hvað það er, það er nákvæmlega sama hvað það er. Þegar Evrópusambandið ákveður að taka þátt í málaferlum gagnvart Íslandi sem það hafði áður sagt að það ætlaði ekki að gera, þá fagna þeir því, það séu bara mjög mikil sóknarfæri í því.

Þegar við lendum í makríldeilu við Evrópusambandið er það fyrsta sem þeir gera að reka aðalsamningamanninn sem er einn virtasti maður á því sviði hér á landi. Ég verð að viðurkenna að maður er algjörlega hættur að trúa allri þessari vitleysu og þessari framgöngu vinstri grænna gagnvart Evrópusambandinu. Það er alveg hreint með ólíkindum. Það kemur náttúrlega að skuldadögum hjá þeim gagnvart því þegar þeir þurfa að horfast í augu við kjósendur, þó svo að einn hv. þingmaður hafi vakið athygli á því að þeir ættu ugglaust eftir að fá eitthvað til baka þegar verkin sæjust betur. En ég held að því sé öfugt farið, fylgið muni þá hrynja enn frekar af þeim þegar fólk áttar sig á þeim blekkingaleik sem hér er.

Það eru fyrst og fremst þessi tvö atriði sem mig langar að fá frekari viðbrögð við hjá hv. þingmanni.