140. löggjafarþing — 84. fundur,  17. apr. 2012.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

699. mál
[15:20]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er alveg hægt að taka undir það með hv. þingmanni að það var hreint til fyrirmyndar hvernig haldið var á Icesave-málinu undir lok ferils þess í efnahags- og viðskiptaráðuneytinu, ekki er hægt að neita því. Það varð mikil breyting á málum. Ég hef síðan þá haft töluverðan ótta af því að ekki sé mjög snjallt að vera að blanda saman inn í utanríkisráðuneytinu annars vegar aðildarumsókn okkar að Evrópusambandinu og hins vegar að halda vörnum okkar gagnvart ESA og ekki síst eftir að Evrópusambandið ákvað að gerast aðili að málinu, þá finnst mér nú málið hafa flækst heldur betur. Leyfi ég mér að efast um að ferlið sem eftir er í þessum málum sé mjög heppilegt.

Ég ætla ekki að gera mönnum upp eitt eða neitt í þessu, heldur bara óttast ég það að þarna kunni að verða meiri árekstrar en þegar hafa orðið, því að við sjáum og höfum séð það núna nýverið, við sem höfum lesið möppuna frægu sem er á 5. hæð í Austurstrætinu, fingraför Evrópusambandsins alls staðar á þessu Icesave-máli frá upphafi til enda. Ég hef áhyggjur af þessu ef hv. þingmaður var að velta því fyrir sér.

Ég vil ítreka það sem ég sagði áðan sem ég held að hv. þingmaður hafi tekið undir, mér finnst svolítið sérkennilegt, ég kaupi ekki alveg þau rök sem ég hef séð í þingsályktunartillögunni fyrir því að færa efnahags- og viðskiptamálin inn í fjármálaráðuneytið. Ég hefði haldið að það væri vænlegra að styrkja ráðuneytið eins og það er í dag, þ.e. á þeim stað sem það er í dag. Að sjálfsögðu þarf að skoða það ef það er virkilega þannig að ráðuneytin tala ekki sín á milli, ráðuneyti sem í liggja einhverjir þræðir eða svipaðir þræðir, þá er eitthvað að í utanumhaldinu á Stjórnarráðinu og stjórnsýslunni. Það er þá sérstakt verkefni. Mér finnst að þarna sé verið að fara ranga leið.