140. löggjafarþing — 84. fundur,  17. apr. 2012.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

699. mál
[15:22]
Horfa

umhverfisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Við ræðum hér tillögu til þingsályktunar um breytta skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands. Má þá segja að komið sé að lokahnykknum í endurskipulagningu Stjórnarráðsins í samræmi við þau áform sem fram komu í samstarfsyfirlýsingu ríkisstjórnarflokkanna. Hér er um að ræða kannski þrenns konar breytingar fyrst og fremst og hafa þær verið ræddar hér, bæði í framsöguræðu og af þeim þingmönnum sem til máls hafa tekið.

Ég vil eðli málsins samkvæmt helst staldra við fyrirhugað umhverfis- og auðlindaráðuneyti og staldra þá líka fyrst og fremst við þau áform sem snúast um umtalsverða eflingu og styrkingu þess málaflokks í Stjórnarráðinu, þ.e. að umhverfismálin séu hliðsett auðlindamálunum í ráðuneyti sem kennd eru við þessa tvo málaflokka. Það er svo sem engin tilviljun að sú leið eða nálgun sé farin því að við þekkjum það vel í alþjóðlegri umræðu að þessir tveir þættir eru algjörlega samtvinnaðir og verða ekki skildir að þegar verið er að ræða um framtíðarmöguleika mannkyns sem byggjast fyrst og fremst á ábyrgri umgengni við auðlindir jarðar. Þar er náttúrlega lykilhugtak sjálfbærni og sjálfbær þróun. Nú þegar við stefnum að Ríó-fundi 20 árum síðar en hinn upphaflegi var haldinn, sem kallaður er Ríó+20 nú í sumar, þá eru allir þessir þættir til umræðu, þ.e. hvert stefnum við? Þurfum við að treysta betur markmið okkar og stilla betur saman strengi, þ.e. ríki heimsins, í því að við megum bera gæfu til þess að jörðin sé áfram byggileg?

Ég var á fundi umhverfisráðherra OECD-ríkjanna á dögunum. Þar var til umræðu allítarleg skýrsla undir yfirskriftinni: Hvað gerist ef við gerum ekki neitt? Hvað gerist ef við höldum uppteknum hætti? Átt var við þá bæði umgengni við auðlindir og ekki síður losun gróðurhúsalofttegunda, umgengni við líffræðilega fjölbreytni og fleiri þætti.

Menn voru þar sammála um allnokkur atriði í grundvallaratriðum. Eitt þeirra atriða sem kom ítrekað inn í umræðuna var mikilvægi þess að samþætta umhverfisáherslur öðrum áherslum í stjórnarráðum almennt, þ.e. að tryggja að umhverfismál og umhverfismarkmið væru ekki einangruð í umræðunni. Menn voru nánast sammála því óháð því hvort um var að ræða ráðherra í Evrópu, Bandaríkjunum, Suður-Ameríku eða annars staðar, að umhverfissjónarmiðin, og þá sérstaklega sýn sjálfbærrar þróunar, væru mikilvæg sérstaklega í efnahags- og atvinnutilliti. Það er nokkuð merkilegt að heyra þennan samhljóm, að menn hafa áhyggjur af því að þessi vissa um mikilvægi þess að það verði ákveðinn viðsnúningur í stjórnum samfélaga, að sú vissa verði of einangruð við umhverfisráðuneyti hvers ríkis.

Annað var það sem mikil áhersla var lögð á, það var áherslan á vísindi og rannsóknir, að byggja ákvarðanir á þekkingu, ekki síst ákvarðanir sem lúta að umgengni við auðlindir og auðlindanýtingu. Það eru auðvitað gríðarlega miklir hagsmunir sem togast á þegar um er að ræða langtíma- og skammtímasjónarmið í umgengni við auðlindir, en ég er þess þó fullviss að það fer algerlega saman, þ.e. þau umhverfissjónarmið sem gera kröfu um ábyrga umgengni við auðlindirnar annars vegar og svo hins vegar sjónarmið þeirra atvinnugreina sem byggja afkomu sína á sömu auðlindum.

Þannig er í raun og veru þekkingin sem smám saman er að byggjast upp á því að sjálfbær nýting er lykill. Hún er um leið að verða þessi eðlilegi, skynsamlegi og rétti rammi utan um auðlindanýtingu og atvinnulíf sem byggir á henni.

Menn voru loks líka sammála um það á þessum vettvangi að mistök væru óvenjulega afdrifarík í þessum geira, þ.e. þau eru á svo stórum skala ef mistök eru gerð í umgengni við auðlindir. Ýmsar þjóðir heims hafa auðvitað lent í því að hafa gengið svo á einhverjar tilteknar auðlindir að ekki verði aftur snúið. Það verður aldrei of oft ítrekað að við verðum að ganga mjög varlega og af mikilli ábyrgð um auðlindirnar.

Af hverju er ég að draga þetta allt saman fram? Jú, það er vegna þess að þær breytingar sem verið er að leggja til hér að því er varðar umhverfis- og auðlindaráðuneyti eru í takti við það sem er að gerast á heimsvísu í því hvernig auðlindanýtingu er fyrir komið í alþjóðaumhverfisumræðunni.

Það sem við erum að hugsa um með tilkomu umhverfis- og auðlindaráðuneytis er að tryggja ábyrga umgengni mannsins við náttúruna og auðlindir hennar. Ekki vegna þess að það hafi ekki verið svo hingað til, heldur til að tryggja það enn frekar. Þetta gerir ráðuneytið með breyttu fyrirkomulagi, með því að sjá til þess að ákvarðanir um nýtingu auðlinda byggi alltaf á bestu fáanlegri þekkingu og að ákvarðanirnar séu teknar með heildarhagsmuni í huga, hagsmuni sem byggðir eru á hugmyndafræði sjálfbærrar þróunar. Ráðuneytið sem verður ráðuneyti sjálfbærrar þróunar hér eftir sem hingað til er þá ábyrgt fyrir því að tryggja rétt komandi kynslóða og möguleika þeirra á að njóta gæða jarðarinnar um ókomna tíð.

Eins og fram hefur komið byggir Ísland auðvitað afkomu sína meira á auðlindum náttúrunnar en margar aðrar þjóðir. Auðlindirnar mynda grunn að mörgum öflugustu atvinnugreinum landsins eins og hér hefur líka verið reifað. Þess vegna er grundvallarþáttur í velferð samfélagsins að allar þessar auðlindar séu nýttar á sjálfbæran hátt svo hægt sé að tryggja varanlegan afrakstur af þeim inn í langa framtíð og eðlilegan arð jafnframt í sameiginlega sjóði.

Mig langar að lokum, virðulegur forseti, að nefna aðeins þær greiningar sem liggja til grundvallar og hafa verið tíndar til. Þær eru allnokkrar eins og hér hefur verið réttilega bent á og kemur fram í greinargerð. Þegar við lítum yfir auðlindir sem eru mjög margþættar, við erum vön að hugsa kannski fyrst og fremst um fiskinn í sjónum, jarðhita og vatnsorku, en land er jú líka auðlind. Hafrýmið er auðlind. Jarðvegur og gróður eru auðlindir. Ólífrænar auðlindir á hafsbotni, vatnafiskar eru auðlind o.s.frv.

Eins og málum er fyrir komið akkúrat núna í Stjórnarráðinu eru grunnrannsóknir, vöktun og svo líka bara almennar þjónusturannsóknir staðsettar á mjög mismunandi stöðum í Stjórnarráðinu eftir því hvaða auðlind við erum að ræða um. Það sama gildir um annars vegar ráðgjöf um vernd og nýtingu, ákvörðun síðan um vernd og nýtingu og loks eftirlit eða stjórnun þegar ákvörðun hefur verið tekin um hvort sem er vernd eða nýtingu viðkomandi auðlindar.

Það sem verið er að gera hér, og ég tek undir það sem hér hefur verið sagt um mikilvægi þess að þetta verði gert í sem mestri sátt, er að verið er að tryggja ákveðna samkvæmni í því hvernig auðlindunum er fundinn staður í Stjórnarráðinu, hvort sem það er að því er varðar ráðgjöf og rannsóknir eða síðan ákvarðanatöku á síðari stigum.